Breytingar á reikigjaldi gætu valdið vandræðum

15.06.2017 - 02:34
epa06027797 A giant placard on European commission headquarters announces the end of mobile phone roaming fees in Brussels, Belgium, 14 June 2017. Mobile roaming charges across the EU are to finally end the latest on 15 June 2017.  EPA/OLIVIER HOSLET
 Mynd: EPA
Reikigjald á farsímanotkun í Evrópu var afnumið í dag. Farsímanotendur þurfa því ekki að greiða hærra gjald fyrir að nota símann utan heimalandsins. Breytingunni er víðast hvar fagnað en hún mun valda auknu álagi á símkerfi stórborga og gæti því valdið notendum vandræðum.

Ný reglugerð Evrópusambandsins um svokölluð reikigjöld tók gildi í dag og notendur þurfa því ekki lengur að greiða gjöldin þegar þeir ferðast innan evrópska efnahagssvæðisins. Ferðalangar hafa fram til þessa fengið háa og óvænta símreikninga fyrir farsímanotkun þegar þeir koma heim úr ferðalaginu. Símafyrirtækjunum var heimilt að innheimta gjald fyrir hvert símtal og hvert megabæt sem farsímanotendur nýttu sér. Þetta heyrir nú sögunni til. Nýja reglugerðin nefnist Roam like home og notendur geta því farið milli landa með símann og notað hann eins og þeir væru í heimalandinu.

Breytingunni hefur víðast hvar verið tekið vel en henni gætu þó fylgt ýmsir ókostir. Jose Antonio Morán, prófessor í upplýsingatækni við Opna háskólann í Katalóníu á Spáni, segir að nú þegar engar hömlur verði á notkun gagnamagns eigi hún eftir að aukast mikið. Símkerfi stórborga og á fjölförnum ferðamannastöðum hafa þegar átt erfitt með að sinna notendum. Með fleiri notendum minnki gæðin og símkerfin gætu átt erfitt með að mæta aukningunni.