Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir Brexit hafa verið forgangsmál í ráðuneytinu um langt skeið. Sviðsmyndum hafi verið stillt upp og mat lagt á áhrif og aðgerðir eftir því hver niðurstaðan verði við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Bretland gengur úr ESB að óbreyttu 29. mars næstkomandi.

„Við höfum verið að vinna að þessu sem forgangsmál mjög lengi. Við höfum gert ráð fyrir fleiri sviðsmyndum heldur en bara útgöngusamningi, meðal annars útganga án samnings. Þetta er ekkert sem er að koma opna skjöldu,“ sagði Guðlaugur Þór í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Hann segir íslensk stjórnvöld hafa átt í samskiptum og samstarfi með Bretum og öðrum nágrannaríkjum og samstarfsríkjum Íslands um Brexit.

Ekki hægt að kvarta undan viðbrögðum Breta

„Við munum vinna þetta áfram eftir því uppleggi sem við erum með. Við teljum okkur vera komin nokkuð langt með að tryggja sérstaklega þessa mikilvægustu þætti, hvort sem það eru vöruviðskipti, loftferðir eða réttindi borgara. Þannig að við erum ekkert að byrja á þessu núna.“

„Mesti vandinn okkar er í rauninni það sem snýr að Bretlandi og ESB. Við ráðum ekki við það af því að það eru mjög mikil viðskipti, sem við tökum þátt í beint og óbeint, á milli Bretlands og Evrópusambandsins. Það er það sem er snúið gagnvart okkur,“ segir Guðlaugur Þór.

„Það sem snýr að Íslandi og Bretlandi, þá getum við ekki kvartað undan viðbrögðum Breta. Langur vegur frá. Þeir hafa lagt á það mikla áherslu að halda sambærilegum viðskiptum og samskiptum eins og við erum með núna. Það má vera að þetta verði í einhverjum liðum, þe. því það mun liggja á og útgangan mun ganga hratt. Við munum þurfa að sjá til þess að samskiptin verði fyrir sem allra minnstu raski. Og síðan erum við að líta til lengri tíma og við höfum lengri tíma til að gera það.“

Enginn hagnast á viðskiptahindrunum

Guðlaugur segir engan hagnast á viðskiptahindrunum og þess vegna sé kappkostað við að greiða úr þeim flækjum sem kunna að skapast við útgönguna. „Aðildarríkin eru að vakna við það að það gæti verið einhver samningur. Það mun enginn hagnast á viðskiptahindrunum í Evrópu. Það liggur alveg fyrir að ef við fáum hindranir, þá mun það hafa mjög slæmar afleiðingar.“

„Þetta eru allt saman vinaþjóðir okkar og ég vona svo sannarlega að þær muni geta unnið úr þessu. Núna mun reyna virkilega á því það er skammur tími til stefnu,“ segir Guðlaugur Þór. „Og enn og aftur segi ég: Það mun enginn hagnast á viðskiptahindrunum í álfunni.“

Um stöðuna í breskum stjórnmálum segir Guðlaugur Þór að staðan sé snúin fyrir Theresu May, forsætisráðherra Bretlands. Hann telur að hún muni standa af sér vantrauststillögu minnihlutans á þinginu. „Þetta kemur ekki á óvart. Það var ljóst um leið og May var búin að gera þennan samning að það yrði á brattan á sækja.“