Ed Miliband, fyrrverandi leiðtogi breska Verkamannaflokksins, segir Brexit hafa tekið yfir alla pólitíska umræðu í Brelandi. Hann segist ekki bjartsýnn á að Bretar gangi úr ESB í lok mars. Miliband segir kvíða og áhyggjur oft á tíðum einkenna andrúmsloftið á breska þinginu.
„Brexit hefur eitrað stjórnmálin okkar.“ Þetta segir Ed Miliband, þingmaður og fyrrverandi leiðtogi breska Verkamannaflokksins. Hann nefnir sem dæmi morðið á þingkonunni Jo Cox í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar árið 2016 auk þess sem þjóðin og þingið séu að mörgu leyti klofin vegna málsins.
„Þess vegna viljum við finna lausn sem nýtur kannski ekki einróma stuðnings á þingi en þó stuðnings eins margra og hægt er. Þannig sýnum við landsmönnum í verki að við getum náð saman og miðlað málum,“ segir Miliband.
Málamiðlanir hafa síður en svo einkennt umræðuna í breskum stjórnmálum í aðdraganda Brexit og hefur Verkamannaflokkurinn sakað Theresu May um að vera einstrengingslega.
„Að mínu mati hefur ríkisstjórnin einblínt um og á eingöngu þá sem studdu Brexit í kosningunum og litið fram hjá hinum,“ segir Miliband.
Úrganga ólíkleg í lok mars
Verkamannaflokkurinn hefur þó sjálfur ekki farið varhluta af gagnrýni og er legið á hálsi fyrir að bjóða eingöngu upp á háværar gagnrýnisraddir en engar hugmyndir að lausnum. Jeremy Cobyn, eftirmaður Milibands í embætti formanns Verkamannaflokksins, setti fyrir helgi fram hugmyndir um breytingar á Brexit samningnum, sem meðal annars fela í sér tollabandalag við Evrópusambandið. En koma þær hugmyndir ekki of seint?
„Ég held að þetta sé ekki of seint. Mér þykir ólíklegt að við förum út úr Evrópusambandinu þann 29. mars, í næsta mánuði, því við erum ekki tilbúin. En ég vona að ef við framlengjum 50.greinina, útgönguferlið, um nokkra mániðu getum við fundið lausn á þeim tíma.“
Kvíði og depurð á breska þinginu
Miliband tók þátt á málþingi um stöðu vinstrisins og hnattrænar áskoranir á Grand hótel í dag, sem haldið var í tilefni 20 ára afmælis Vinstri grænna. Talsvert hefur verið rætt um andrúmsloftið á Alþingi Íslendinga undanfarið, en hvernig ætli andrúmsloftið sé á breska þinginu á þessum óvissutímum.
„Það er dapurt á köflum, margir hafa áhyggjur og það er kvíði í loftinu. Það er hinsvegar gott fólk í báðum fylkingum sem vill finna lausn til þess að við getum hætt að tala um Brexit. Það er líklega langt í það en það sem kjósendur segja mér er ekki aðeins hvernig þeir greiddu atkvæði um Brexit heldur eru mörg önnur vandamál í heilbrigðisþjónustunni, í húsnæðismálum og menntamálum. Kjósendur vilja að við höldum áfram að fjalla um þau mál,“ esgir Miliband.
„Brexit hefur sogað allt súrefni úr pólitíkinni í tvö og hálft ár, og við verðum að reyna að komast yfir þetta.