Breska þingið: Kosið um kosningar í dag

19.04.2017 - 05:14
Erlent · Bretland · Brexit · Evrópa · Stjórnmál
epa05913593 A general view of parliament following British Prime Minister Theresa May's announcement that she will call for a general election in London, Britain, 18 April 2017. British Prime Minister Theresa May has announced that she will be
 Mynd: EPA
Tillaga Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um að flýta þingkosningum og halda þær þann 8. júní næstkomandi, verður tekin fyrir í neðri deild breska þingsins síðdegis í dag. Tveir þriðju hlutar þingheims þurfa að samþykkja tillöguna svo hún nái fram að ganga. Ekki er búist við öðru en að sá þröskuldur verði yfirstiginn vandræðalaust, því leiðtogar Verkamannaflokksins og Frjálslyndra hafa báðir lýst sig viljuga að ganga til kosninga hið snarasta.

Fulltrúar Skoska þjóðarflokksins hyggjast aftur á móti sitja hjá í atkvæðagreiðslunni í dag. Næstu þingkosningar í Bretlandi áttu að fara fram árið 2020, en Theresa May tilkynnti í gær að hún hygðist flýta þeim til að styrkja umboð sitt og flokks síns í Brexit-viðræðunum við Evrópusambandið.