17. öldin var höll undir allskonar formlegheit og kristileg ávörp þegar kom að bréfaskrifum. Ragnhildur Hólmgeirsdóttir veltir fyrir sér bréfaskriftum sem tengjast Tyrkjaráninu í pistli í Víðsjá á Rás 1. Tónn bréfanna sveiflast oft milli örvæntingar og reiði og veita innsýn í neyð bréfritara.
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir skrifar:
Vitneskja okkar um fortíðina byggir á langri og ólíklegri röð tilviljana. Í fyrsta lagi þarf einhver að segja frá atburðunum, til dæmis skrifa um þá. Í öðru lagi þarf sá texti að varðveitast. Hann þarf að lifa af bruna og raka, pappírsétandi skordýr og aðrar hungraðar lífverur, flutninga, ritskoðanir og tiltektaræði. Í þriðja lagi þurfum við síðan að lesa þennan texta og skilja hann rétt. Þetta ferli er álíka áreiðanlegt og meðalhappdrætti og þvi er alltaf mögulegt að það sem við teljum okkur vita um fortíðina sé ekkert nema misskilningur. En ef allir myndu alltaf vinna í happdrætti, þá yrðu vinningarnir mjög fljótt einskis virði og því er eins farið með sögulegar heimildir. Því ótrúlegri sem tilvist þeirra er, því merkilegri finnst okkur þær vera.
Á meðal slíkra heimilda eru án nokkurs vafa þau sendibréf sem Íslendingar í þrældómi í Norður-Afríku, fórnarlömb Tyrkjaránsins, sendu ættingjum sínum á 17. öld. Fulltrúar Íslendinga á meðal þeirra milljóna sem urðu þrælahaldi að bráð á þessum tíma eru ekki sérlega margir, en þeir eiga sérstakan sess í íslenskri sögu. Um Tyrkjaránið er til fjöldi samtímaheimilda sem gefa óvenjulega innsýn í þær skelfilegu afleiðingar sem sjórán og þrælaverslun höfðu. Af öllum þessum heimildum þá eru sendibréfin sérstaklega áhrifamikill vitnisburður. Allajafna hafa þrælar nefnilega ekki tækifæri til að senda bréf heim til sín, hvað þá heimsálfa á milli, löngu fyrir tíma áreiðanlegrar póstþjónustu.
Bréfin geta allir lesið á vefnum bækur.is, í heimildaútgáfunni Tyrkjaránið á Íslandi 1627. Þau eru skrifuð nokkrum árum eftir ránið og það síðasta, frá árinu 1635, er sent af hópi fanga sem nafngreina sig ekki en biðja konung og Íslendinga alla um hjálp. Þrjú bréf eru hins vegar skrifuð og undirrituð af einstaklingum og stíluð á fjölskyldumeðlimi og vini.
Tilvist þessara bréfa er í sjálfu sér merkileg, en þar sem fjöldi hinna herteknu var um fjögur hundruð, þá hljótum við að velta því fyrir okkur hvort einhver fleiri hafi verið send af stað, en týnst á leiðinni. Enda sjást vandkvæðin við að senda bréfin og efasemdirnar um að þau berist alla leið til Íslands glöggt í tveimur þessara bréfa. Annað er skrifað af bræðrunum Jóni og Helga Jónssyni, en hitt af Guttormi Hallssyni. Jón Jónsson vonaðist þrátt fyrir allt eftir svari og ráðlagði foreldrum sínum að senda svar til kunningja í Danmörku. Sá skuli síðan senda bréfið upp á von og óvon til Marseilles í Frakklandi eða Lígúríu á Ítalíu, og vonandi rati bréfið þaðan til hans í Alsír. Hvort það svar barst nokkurn tíma og hvað gæti hafa staðið í því er hins vegar önnur saga.
Augljós neyð
Bræðurnir skrifuðu sitt bréf „með mesta flýti, á miðnætur tíma, meðan allir sváfu“ og Guttormur Hallsson talar um „fá orð og skyndiskrifelsi uppritað á næturtíma í leyndum stað“. Þessar aðstæður skína í gegn í báðum bréfunum. Þau eru að vísu löng og oft nokkuð formleg en vaða úr einu í annað. Þetta eru orð og hugsanir manna sem hafa upplifað tvo gerólíka heima og berjast við að koma reynslu sinni í orð, að tjá í einu bréfi allt sem þeir vilja og þurfa að segja við fólk sem þeir munu líklega aldrei sjá aftur. Í báðum þessum bréfum taka bréfritararnir nokkrar atlögur að því að enda mál sitt, en svo er eins og þeim gefist óvænt meiri tími, eða þá að þeir geta ekki slitið sig frá skriftunum, því aftur og aftur byrja þeir á nýrri málsgrein. Þó bréfin séu ólík því sem nokkur Íslendingur myndi skrifa í dag, þá hafa þau ekki bara náð að ferðast frá Alsír til Íslands, heldur frá 17. öldinni til þeirrar 21. og þau eru enn mjög áhrifamikil. Neyð bréfritaranna er öllum ljós.
Þriðja persónulega bréfið er frá Guðríði Símonardóttur til eiginmanns síns í Vestmannaeyjum. Af öllum þessum bréfum er það jafnan bréf Guðríðar sem vekur mestan áhuga, enda er þar ekki á ferð neinn Jón Jónsson. Ekki bara er þetta bréf eina heimildin um Tyrkjaránið frá sjónarhóli konu, heldur átti Guðríður síðar meir eftir að giftast einu frægasta skáldi Íslands, Hallgrími Péturssyni, og hún varð að lokum að hálfgerðri þjóðsagnapersónu. En, bréf Guðríðar mætir einfaldlega ekki væntingum hins nútímalega lesanda. Það veitir hvorki innsýn í hugarheim hennar sem einstaklings né reynslu kvenna í Tyrkjaráninu. Bréf Guðríðar er skólabókardæmi um heimild sem er erfitt að skilja, það vekur upp fleiri spurningar en það svarar.
Orðafjöldi og skrúð
Þó það sé stílað á eiginmann hennar og ávarpi hann beint, þá er eins og konan sé að skrifa fullkomlega ókunnum manni. „Ég þakka yður í ástsemd ástsamlega og í vinsemd vinsamlega fyrir alla yðar velgerninga, trú og dygð,“ segir hún meðal annars, og er það þó með persónulegri línum bréfsins. Allskonar formlegheit og kristileg ávörp í anda 17. aldar er líka að finna í bréfum Jóns og Guttorms, en þó ekkert í líkingu við bréf Guðríðar. Eftir langan, orðmargan og guðhræddan aðdraganda þá loksins skiptir bréfið um tón þegar Guðríður fer að tala um áhyggjurnar sem hún hafi af syni sínum, sem einnig var tekinn til fanga. En þá er eins og sagan ákveði vísvítandi að stríða okkur, því þar endar bréfið. Þó það hafi komist alla leið frá Alsír til Íslands, þá skilaði það sér ekki heilt til 21. aldarinnar. Afritið af því skaddaðist. Við fáum aldrei að vita hvaða áhyggjur Guðríður hafði af syni sínum.
Þessi uppskrúfaði og ópersónulegi stíll hefur getið af sér ýmsar vangaveltur. Eru þetta orð konu sem hefur liðið slíkar þjáningar að hún hefur fjarlægst sjálfa sig og gefið sig trúnni algjörlega á vald? Eru þetta kannski alls ekki orð konu? Það er ekki útilokað að einhver hafi skrifað bréfið fyrir hana. Við vitum í raun ekkert um líf Guðríðar áður en henni var rænt, en það var óvenjuleg kunnátta á þessum tíma að geta skrifað, sérstaklega fyrir konur. En kannski er þessi tilgerðarlegi ritstíll einmitt merki um kvenhöfund, sem fannst hún þurfa að leggja sérstaklega mikið á sig til að mark væri á sér tekið. Það má koma með endalausar getgátur.
Örvænting og reiði
Myndum við vera einhverju nær ef við vissum hvernig bréfið endaði? Ef til vill vitum við nú þegar allt sem við þurfum að vita. Bræðurnir Jón og Helgi, Guðríður, Guttormur og hinn ónafngreindi hópur þrælkaðra fanga, allt þetta fólk vildi það sama. Það var ekki að laumast til að skrifa bréf um miðjar nætur af tilfinningaástæðum einum. Þau vildu fyrst og fremst komast heim. Bréfin voru sönnun þess að þau væru á lífi og héldu enn kristna trú, en án hennar glataðist öll von um að þau yrðu keypt heim á ný. Tónn bréfanna sveiflast á milli örvæntingar og reiði, frá þvi að sárbiðja um björgun til þess að hóta annarri árás sjóræningja á Ísland, ef hinir íslensku þrælar verði ekki keyptir heim. Þó bréfin séu kannski stíluð á nafngreint fólk, foreldra, eiginmenn, vini, þá eru þetta ekki raunveruleg einkabréf.
Guðríður var ekki að skrifa manninum sínum hjartnæmt bréf, hún var að skrifa gervöllu Íslandi til að sýna það svart á hvítu að hún væri trú bæði eiginmanni og kristnum sið. Að hún væri þess virði að vera bjargað. Að einhverju leyti tókst henni ætlunarverk sitt. Guðríður sneri heim eftir átta ára dvöl í þrældómi, en einhvern veginn tókst henni að safna fyrir hlutanum af sínu eigin lausnargjaldi. Einungis einn tíundi þeirra sem rænt var sneri aftur, og því má segja að henni hafi tekist hið ómögulega. En þrátt fyrir allt sem hún lagði á sig, þá varð orðspor hennar aldrei samt. Í þjóðsögum og kjaftasögum varð Guðríður allt annað en trygglynd kristin eiginkona. Hún átti þvert á móti að hafa vafið alsírskum karlmönnum um fingur sér og dýrkað skurðgoð þegar heim var komið. Þrátt fyrir allt breyttist Guðríður Símonardóttir að eilífu í Tyrkja-Guddu.
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir sagnfræðingur er með pistla annan hvern fimmtudag í Víðsjá á Rás 1.