Seðlabankinn er fljótari og liprari við að hækka vexti en lækka þá sagði Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í Kastljósi í kvöld. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði að fólk yrði að líta til sögunnar og læra af þeim mistökum sem gerð hefðu verið í hagstjórn, frekar en að gera sömu mistökin aftur.
„Seðlabankinn hefur þessa ríku tilhneigingu: hann er alltaf miklu fyrr til og liprari við að hækka vexti en að lækka þá. Ég verð að segja eins og er að mér finnst þeim dálítið brátt í brók að gera þetta með þessum hætti,“ sagði Páll. „Eins og fyrri daginn finnst mér þetta eins og þegar verslunin var að bregðast við gengisbreytingum. Mönnum er lausari höndin til hækkunar en lækkunar.“
Þetta sagði Páll í Kastljósi þar sem hann og Helgi Hrafn ræddu vaxtahækkun og húsnæðismál.
Helgi Hrafn sagði umræðuna minna mikið á umræðuna um vexti fyrir hrun þó margt væri ólíkt. „Það að fara að hækka vexti til að berjast gegn verðbólgu þegar það er hægt að fara með peninga úr landi: það er hætta á alls konar hlutum eins og vaxtamunarviðskiptum. Það er alls konar hætta sem kemur með því. Ég er ekki sannfærður um það að þessi einfalda hagfræði að hækka vexti til að sporna gegn verðbólgu í hagkerfi eins og þessu er til þess fallin að verja það ef það er fyrirsjáanlegt að hlutirnir muni ekki ganga jafn vel á næstunni,“ sagði Helgi. „Ég er aldrei þessu vænt dálítið sammála meirihluta gagnrýnenda hvað varðar þessa vaxtahækkun. Ég er efins um að hún sé rétta útspilið á þessum tímapunkti.“
Helgi Hrafn sagðist hafa mestar áhyggjur af því á næstunni að sagan endurtaki sig með verðbólguskoti og hækkun lána. Þá vakni spurningin um hvernig brugðist verði við. „Mér finnst við þurfa aðeins að líta á söguna og velta fyrir okkur hvaða mistök við erum að gera aftur, og læra af hlutunum.“