Bragi Guðbrandsson, fyrrum forstjóri Barnaverndarstofu, gerðist ekki brotlegur við lög en fór út fyrir starfssvið sitt þegar hann hlutaðist til um í barnaverndarmáli í Hafnarfirði. Þetta var niðurstaða skrifstofu félagsþjónustu í velferðarráðuneyti 6. febrúar. Minnisblað þess efnis hefur ekki verið gert opinbert. Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, var í því hvattur til að senda Braga tilmæli um að fara ekki aftur út fyrir starfssvið sitt.
Þrjár barnaverndarnefndir kvörtuðu á síðasta ári yfir óeðlilegum afskiptum Braga, þáverandi forstjóra Barnaverndarstofu, af barnaverndarmálum. Stundin fjallaði um eitt málanna síðasta föstudag. Það mál varðar meint afskipti Braga af máli þar sem faðir er grunaður um að hafa beitt tvö börn sín kynferðisofbeldi. Afi mannsins hafði samband við Braga til að fá hann til að hlutast til um í málinu svo að börnin fengju að hitta ömmu sína sem þá var dauðvona.
Ásmundur Einar kom fyrir velferðarnefnd Alþingis í dag vegna málsins. Rætt var við hann í Kastljósi kvöldsins. Þar bar Einar Þorsteinsson, stjórnandi þáttarins, það undir ráðherrann hvort það væri rétt að skrifstofa félagsþjónustu í velferðarráðuneyti hefði komist að þeirri niðurstöðu að Bragi hafi farið út fyrir starfssvið sitt í málinu í Hafnarfirði og fengið í kjölfarið tilmæli um að gera það ekki aftur. Í þættinum viðurkenndi Ásmundur að það hafi verið niðurstaða málsins innan ráðuneytisins. Þess má geta að hann greindi ekki frá þessu á þeim tveimur fundum sem hann hefur átt með velferðarnefnd Alþingis vegna málsins, annars vegar í dag og hins vegar 28. febrúar síðastliðinn.
Segir tilmælin efnislega eins og í minnisblaði
Aðspurður að því hvort þau tilmæli sem voru send til Braga hafi verið nákvæmlega eins og þau sem skrifstofa félagsmála lagði til, segir Ásmundur að efnislega hafi þau verið eins. „Tilmælin sem voru send voru efnislega algjörlega í takt við minnisblöð sem þar búa að baki. Það er ekkert í þeim sem kallar á annað. Ráðherrann síðan staðfestir tilmæli sem eru send út. Minnisblöðin sem lágu að baki voru þess eðlis að þau voru tillögur til ráðherra, eins og minnisblöð gjarna eru. Í framhaldinu eru send út bréf eða tilmæli.“
Ber fullt traust til Braga
Bragi er í framboði sem fulltrúi Íslands til setu í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna næstu fjögur ár. Hann sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann kvaðst ætla að óska eftir því við Umboðsmann Alþingis að hann tæki embættisfærslur þær, sem kvartað hafi verið yfir, til meðferðar. Í tilkynningunni sagði að það gæfi auga leið að hann myndi skoða framboð sitt til setu í nefndinni i ljósi niðurstöðu umboðsmanns Alþingis. Leiði sú niðurstaða í ljós að hann hafi brotið af sér í starfi muni hann axla ábyrgð í samræmi við það. Ásmundur Einar sagði í Kastljósinu að hann bæri traust til Braga til setu í nefndinni. Það væri mjög jákvætt ef af framboðinu yrði. Hins vegar væri brýnt að gera breytingar á barnaverndarmálum hér á landi.
Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.