Kettir geta verið uppátækjasamir. Það á við um köttinn Boris Jeltsín, sem er til heimilis á Egilsá í Norðurárdal í Skagafirði. Þetta er söngvinn köttur, eins og nafni hans, og öflug veiðikló.
Eigandi kattarins, Jóhann Jakobsson, vaknaði upp við það eldsnemma morguns fyrir helgi, að kisi hafði gómað rjúpu, þvælt henni inn um glugga, í gegnum eldhús og borðstofu og sleppti henni síðan í svefnherberginu. Þar vakti hún upp og flaug um og skeit meðal annars á kodda bónda. Jóhann gómaði fuglinn, sem ekkert sá á þrátt fyrir að vera nýveiddur, fór með hann út og flaug sú hvíta alglöð út í frelsið.
Jóhann spurði sjálfan sig hvernig skaparinn launaði nú svona guðsþakkarverk og viti menn, hann mætti manni í Lýtingsstaðahreppi síðar þann sama dag og gaukaði sá að honum nokkrum rauðmögum.