Borges um Maduro: Stofnanir teknar í gíslingu

06.08.2017 - 00:42
epa06121657 President of the National Assembly of Venezuela, Deputy Julio Borges (C), makes statements to the press in Caracas, Venezuela, 02 August 2017. The National Assembly of Venezuela has asked the Venezuelan Public Prosecutor’s Office for an
 Mynd: EPA  -  EFE
Nicolas Maduro og flokkur hans eru búin að taka ríkisstofnanir Venesúela í „gíslingu“. Þetta segir leiðtogi þjóðþingsins í landinu, Julio Borges, en stjórnarandstaðan er í meirihluta á þjóðþinginu. Hann segir að einn flokkur hafi tekið öll völd með ólýðræðislegum hætti. Verknaðurinn er gjörræðislegur, hefur fréttastofa AFP eftir Borges, og gagnrýnir hann Maduro sem áður fyrir einræðistilburði.

Flokkssystkin Nicolas Maduros, forseta Venesúela, þrömmuðu sigri hrósandi í þinghús landsins í Karakas á föstudag. Tók þar með til starfa umdeilt stjórnlagaþing sem kosið var um síðustu helgi. Hlutverk þess verður að endurskrifa stjórnarskrá landsins og Maduro segir að það muni færa landinu frið eftir mánaðalanga stjórnarkreppu. Stjórnarandstaðan segir hins vegar að með fyrirhuguðum breytingum á stjórnarskrá eigi að greiða leiðina að einræði í landinu.

Stjórnlagaþingið ákvað í dag að víkja ríkissaksóknara landsins, Luisa Ortega, úr embætti. Hún hefur verið áberandi meðal þeirra sem gagnrýnt hafa einræðistilburði Nicolas Maduros, forseta landsins. Hún var áður stuðningsmaður Maduros en hefur snúið við blaðinu og gagnrýnt einræðistilburði forsetans.