Samúel Sigurðsson læknir segir að alvarlegar sýkingar vegna pneumókokka bakteríunnar séu nánast horfnar eftir að farið var að bólusetja börn við bakteríunni. Það sýni niðurstöður umfangsmikilla rannsókna á áhrifum bólusetningarinnar
Pneumokokkar valda alvarlegum sýkingum
Fyrir sjö árum var byrjað að bólusetja við pneumókokkum á Íslandi. Nokkru síðar hófst umfangsmikil rannsókn á áhrifum bólusetningarinnar. Henni stjórnuðu þrír íslenskir læknar, Ásgeir Haraldsson, Karl G. Kristinsson og Helga Erlendsdóttir og er hún unnin í samstarfi við háskólana í Oxford og Cambridge. Rannsóknin var styrkt m.a. af lyfjarisanum GlaxoSmithKline.
Samúel tók þátt í þessari rannsókn og varði doktorsritgerð sínaí læknavísindum í síðustu viku. Hann segir að pneumókokkar séu bakteríur sem geta valdið mjög alvarlegum sýkingum hjá börnum.
„Og þetta er í raun ein algengasta dánarorsök í heiminum í ungum börnum. Árlega deyja um það bil 300 þúsund börn undir 5 ára vegna sýkinga sem eru ollnar af þessari bakteríu þannig að hún getur verið mjög skaðleg þar sem eru aðrir faktorar eins og vannæring og skert heilbrigðisþjónusta. En á Íslandi sjáum við langmest af minna alvarlegum sýkingum, eins og eyrnabólgu, lungnabólgu, sem geta þó verið talsvert alvarlegar og svo sáum við um það bil 10 börn á ári áður en bólusetningin hófst með alvarlega ífarandi sýkingar. Þá er ég að tala um heilahimnubólgu, blóðsýkingar og hugsanlega liðsýkingar einnig.“
Gífurlega mikið af gögnum
Rannsókn Samúels skiptist í fernt. Tekin voru sýni úr nefkoki leikskólabarna og borið saman hve mörg börn væru með bakteríuna fyrir og eftir bólusetningu. Komur barna fæddra 2005 til 2015 á heilsugæslustöðvar vegna eyrnabólgu voru einnig skoðaðar. Ennfremur komur á bráðamótttöku barna vegna öndunarfærasýkinga og svo innlagnir á Barnaspítala Hringsins vegna ífarandi sýkinga eins og blóðsýkinga, heilahimnubólgu og öndunarfærasýkinga.
„Við höfum alveg gífurlega mikið af gögnum sem við höfum safnað úr gagnagrunnum sem haldið er utan um hjá landlæknisembættinu og Hagstofu Íslands og Sjúkratryggingum Íslands og fleirum. Við höfum náð að tengja alla þessa gagnagrunna saman með dulkóðuðum persónunúmerum og þannig höfum við náð að gera eitthvað sem er í raun ómögulegt erlendis. Við náum að rannsaka hvern einstakling á landinu og fylgja honum eftir með tilliti til sýkinga og komu til lækna
Hættulegar bakteríur nánast horfnar úr nefkoki barna
Niðurstöðurnar eru mjög sláandi því bakteríunum hefur fækkað verulega með bólusetningunni.
„Niðurstaða úr fyrsta hlutanum er sú að þessar 10 algengustu og hættulegustu undirtýpur sem bólusett er gegn á Íslandi eru nánast horfnar úr nefkoki leikskólabarna. Og sýklalyfjanæmi þeirra hefur aukist þannig að þær bregðast betur við sýklalyfjum þegar þau eru gefin.“
„Þegar við drógum síðast saman gögnin, í lok árs 2015, í þessari rannsókn og birtum í Vaccine blaðinu var 93% lækkun í berahlutfalli á þessum bakteríum. En ef við skoðum bara nýjustu niðurstöðurnar, 2018, þá er ekki til staðar nein bóluefnishjúpgerð þannig að það má segja að það hafi lækkað um 100 prósent frá 2011.“
Færri börn koma á heilsugæslu vegna eyrnabólgu
Í öðrum hluta rannsóknarinnar voru skoðaðar komur barna á heilsugæslu vegna eyrnabólgu.
„Á heilsugæslunni höfum við séð mjög mikla fækkun. Við höfum séð um það bil fjórðungsfækkun í komum vegna eyrnabólgu á Íslandi. Börnin sem fá flestar eyrnarbólgurnar, sem eru verst haldin, fá meira en fimm eyrnabólgur fyrir þriggja ára aldur. Þeim hefur fækkað um einn sjöunda og meðalfjöldi eyrnabólga á hvert barn hefur líka minnkað talsvert.“
„Og til að draga saman þá má segja að það sé fjórðungs lækkun í komum bæði á bráðamótttöku barna og á heilsugæsluna vegna eyrnabólgu. Það fækkar komum vegna lungnabólgu á bráðamóttöku barna og innlögnum vegna hennar og við sjáum að það er nánast útrýming á ífarandi sýkingum. Þetta eru sýkingar sem voru að greinast um það bil 10 sinnum á ári í börnum undir fimm ára aldri en eru núna miklu sjaldnar, varla ein á ári. Og ekkert barn hefur greinst með ífarandi sýkingu vegna bóluefnishjúpgerðar frá því að bólusetningin hófst. Þannig að þetta hefur í för með sér minni sýklalyfjanotkun færri komur á heilsugæslu og vonandi meiri lífsgæði hjá börnunum og foreldrum þeirra, sem þurfa væntanlega að taka færri veikindadaga.
Aukin lífsgæði barna og foreldra
Haldið verður áfram að bólusetja börn við pneumókokkum. Erlendis hefur verið rannsakað hvað myndi gerast ef því yrði hætt.
„Og niðurstaðan hefur verið að þeir munu þá væntanlega snúa aftur vegna þess að við náum aldrei að halda þeim alveg niðri í öllum aldurshópum heldur er bólusetningin aðallega til að vernda þá sem bera þá, mest ungu börnin.“
Samúel segir að niðurstöðurnar sýni að bólusetningin hafi mikla þýðingu.
„Þetta segir okkur það að sjúkdómsbyrði pneumokokka á Íslandi hefur minnkað alveg gífurlega frá því að bólusetningin hófst. Og þetta hefur í för með sér það að börnin þurfa síður og sjaldnar að sækja heilbrigðisþjónustu. Þau þurfa væntanlega að fá færri sýklalyf og foreldrarnir þurfa sjaldnar að taka frí frá vinnu. Lífsgæði barnanna og foreldra þeirra vonandi hafa aukist.“