„Við erum að sjá það í öðrum Evrópulöndum að bókin er að sækja á aftur - bókin sem prentgripur,“ sagði Hólmfríður Matthíasdóttir, útgáfustjóri Forlagsins, vongóð á Morgunvaktinni á Rás 1 í aðdraganda uppskeruhátíðar bókmenntaheimsins – í kvöld verða Íslensku bókmenntaverðlaunin afhent.

Jólabókatíðin er að baki en ekki gefst tími til að slaka á. Hólmfríður, eða Úa, eins og hún er jafnan kölluð, segir hreinlega: „Við megum ekki slaka mikið á.“ Það er allt komið á fulla ferð í útgáfugeiranum. „Við erum farin að huga að útgáfu bóka á næsta ári og stilla upp útgáfulista þessa árs. Það tekur mörg ár að undirbúa sum verk. Við þurfum alltaf að hugsa fram í tímann.“

Um áramótin tóku gildi lög sem heimila endurgreiðslu á 25% kostnaðar vegna útgáfu bóka á íslensku. Beðið er reglugerðar um útfærslu en lögin gilda um bækur sem út koma á árinu og framvegis. Útgáfustjóri Forlagsins segir að þetta eigi eftir skipta máli og lýsi því að stjórnvöld meti mikilvægi bóka fyrir lestur og menningu. 

„Okkar von er að þetta auki fjölbreytni, geri okkur kleift að gefa út bækur sem við höfum áður hikað við að gefa út vegna kostnaðar. Svo á þetta kannski líka eftir að hafa áhrif á söluverð. Þetta á eflaust eftir að verða til góðs fyrir útgefendur, höfunda og allan almenning."