Tungusól og nokkrir dagar í maí eftir Sigurlín Bjarney Gísladóttur skiptist í þrjá hluta „Látra-Björg á vergangi,“ „Tungusól“ og að lokum „Nokkrir dagar í maí.“ Þetta er bók um ást og ástarsorg og missi en líka um konur og kvenlega iðju.
Fyrsti og síðasti hluti bókarinnar eru prósaverk, annars vegar skálduð dagbókarskrif Látra - Bjargar á fjörutíu og fjögurra ára tímabili, frá 1740 til 1784 og hins vegar persónuleg dagbókarskrif úr samtímanum, nánar tiltekið nokkra daga í maí árið 2014. Miðja bókarinnar, sem ber titil síðasta ljóðsins, „Tungusól,“ hefur svo að geyma ljóð.
Aðspurð um það hvernig þessir í raun ólíku hlutar hefðu ratað saman í eina bók sagði Sigurlín Bjarney tilviljun hafa að einhverju leyti ráðið; hún hefði einfaldlega átt þetta efni um leið bendir hún á ástarsorgina, missinn sem rauðan þráð í öllum þremur hlutum bókarinnar sem og þræði í sjálfu sér, þ.e. þræði sem slitna og líka sjóinn.
Sigurlín Bjarney viðurkennir fúslega að ljóðabókin Tungusól og nokkrir dagar í maí sé hennar persónulegasta bók; hún er að fjalla um sinn eigin missi, sína ástarsorg en slíkt eru líka svo sammannlegt, segir hún ennfremur, sorgin og dauðinn er eitthvað sem allir upplifa. Svo er þetta líka bók um trúna á skáldskapinn, að hann geti verið haldreipi, ekki bara með því að lesa heldur líka með því að skrifa, „að draga fram lífið með því að draga til stafs.“
Jórunn Sigurðardóttir ræddi við þau Anton Helga Jónsson ljóðskáld og Þórdísi Eddu Jóhannesdóttur íslenskufræðing um Tungusól og nokkra daga í maí eftir Sigurlín Bjarney Gísladóttur.