„Ég er hugsi yfir heimsendahugmyndum á okkar tímum. Þetta er ekki lengur tabú, þetta er bara eitthvað sem maður spjallar um,“ segir rithöfundurinn Þórdís Helgadóttir um nýlega bók sína Keisaramörgæsir sem geymir 16 sögur um samtíma, framtíð, hversdagsleika og furður.

Keisaramörgæsir geymir sjálfstæðar smásögur þó finna megi þráð milli þeirra - flestar fjalla þær um samtímann, um undarlegt hlutskipti mannsins í náttúrunni, lítillar áhrifaveru á stórri plánetu. Okkar tímar einkennast af glundroða að einhverju leyti, segir Þórdís, ofgnóttin er algjör og alþjóðavæddur, gjörtengdur heimur skilur engan útundan og tortímingin virðist aldrei vera langt undan.

Sögurnar eru karnivalískar að mörgu leyti segir höfundur og að tilraunagleðin ráði ríkjum í öllum sögum bókarinnar. Þær eru afar ólíkar, bæði hvað varðar lengd og efnistök. Sumar flakka í tíma og aðrar milli hversdagsveruleika og furðuheims þar sem undarlegar verur skjóta upp kollinum á borð við tröll og djöfullinn sjálfan.

Í sumum sögunum hefur veröldin tortímst algjörlega, í öðrum hafa sambönd fólks komin í öngstræti. Dýr koma einnig mikið við sögu sem menn í dag sjá aðallega í sjónvarpsþáttum en verða afskaplega sterkt tákn í meðförum Þórdísar yfir dramb mannsins og innsta eðli sem hann virðist oft reyna hrista af sér í örvæntingu.

Keisaramörgæsir er fyrsta bók Þórdísar Helgadóttur en þó er hún ekkert byrjendaskáld á ritvellinum. Hún hefur látið mikið á sér kræla undanfarið, birt örsögur, smásögur, ljóð og þýðingar auk þess sem hún var valin leikskáld Borgarleikhússins í mars á þessu ári. 

Jóhannes Ólafsson ræddi við Soffíu Auði Birgisdóttur og Sólu Þorsteinsdóttur, bókmenntafræðinga, um bókina.