Skáldsagan Blá eftir norska rithöfundinn Maju Lunde er bók vikunnar á Rás 1. „Hún snýst um vatn. Annars vegar hvernig við misnotum auðlindir vatnsins með virkjunum og ágangi á jörðina, og svo hins vegar hvaða afleiðingar þessi misnotkun gæti haft,“ segir Ingunn Ásdísardóttir þýðandi um bókina sem kemur út á íslensku í þessari viku.
Maja Lunde hefur áður skrifað barna- og ungmennabækur auk þess að skrifa fyrir sjónvarp og kvikmyndir. Blá er önnur bókin í svokölluðum loftslagsfjórleik Lunde þar sem hún notar skáldskapinn til að skoða hverjar afleiðingar loftslagsbreytingar geta orðið í framtíðinni. Í fyrstu bókinni Saga býflugnanna (n. Bienes historie) velti hún fyrir sér brotthvarfi býflugna úr lífríki jarðar, en í þessari bók er það mikilvægi vatnsins sem er til umfjöllunar.
Í bókinni fléttast saman tvær sögur á tveimur tímaskeiðum. Annars vegar er það sagan af Signe norskum náttúruverndarsinna í nútímanum og hins vegar saga sem gerist árið 2041 og segir frá David og Lou, feðginum sem hafa flúið heimili sitt í Frakklandi vegna þurrka og hafast við í flóttamannabúðum. „Staðan í þeim hluta bókarinnar sem gerist eftir 20 ár er orðin þannig að allt fyrir sunnan mið-Frakkland er orðið að eyðimörk,“ segir Ingunn. Bókin lýsir þannig aðstæðum nokkurra þeirra milljóna Evrópubúa sem hafa gerst loftslagsflóttamenn og eru að reyna að komast norðar í álfuna þar sem enn er vatn að finna.
Í þættinum Bók vikunnar á Rás 1 sunnudaginn 14. apríl ræðir Kristján Guðjónsson við þau Halldór Björnsson veðurfræðing og Guðrúnu Elsu Bragadóttur bókmenntafræðing um Blá eftir Maju Lunde.