Sjálfstæðisflokkurinn nýtur mest fylgis meðal krakka landsins samkvæmt kosningu Krakkarúv sem fram fór í grunnskólum víða um land í vikunni fyrir kosningar. Flokkarnir sem njóta næst mest fylgis eru Píratar og Alþýðufylkingin. Samfylkingin og Viðreisn næðu ekki fólki á þing ef æska landsins fengi að ráða.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk nær fjórðung atkvæða ungmennanna, 24,3 prósent og 21 þingsæti. Píratar fengu 15,1 prósent og ellefu þingsæti en Alþýðufylkingin 13,5 prósent og tíu þingsæti. Það er ef til vill mesta breytingin frá skoðanakönnunum síðustu daga þar sem Alþýðufylkingin hefur mælst víðsfjarri því að ná manni á þing.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð fékk 10,5 prósent og sjö þingmenn en Björt framtíð 8,6 prósent og sex þingmenn. Dögun og Framsóknarflokkurinn fá sitt hvor fjögur þingsætin, báðir með um 6,1 prósent atkvæða.
Flokkarnir sem ná engum manni á þing miðað við vilja krakkanna eru Viðreisn með 4,4 prósent atkvæða, Flokkur fólksins með 3,5 prósent, Samfylkingin með 3,0 prósent, Íslenska þjóðfylkingin með 2,5 prósent og Húmanistaflokkurinn með 2,4 prósent atkvæða.