Ari Ólafsson syngur lagið Heim eða Our Choice í Söngvakeppninni í ár en bæði lög og textar eru úr smiðju Þórunnar Ernu Clausen. Þau hafa þekkst lengi, kynntust í leikhúsinu fyrir mörgum árum og tengjast nánast fjölskylduböndum.

„Þórunn er mamma mín!“ segir Ari hlæjandi. Þórunn bætir við að þau gruni nánast að hún hafi fætt barn fyrir 19 árum án þess að muna eftir því. „Hann er nefnilega rosalega líkur yngri syni mínum,“ segir hún. Hið sanna er að Ari og Þórunn hittust í Borgarleikhúsinu, þar sem Ari stóð kornungur á sviðinu og söng en Þórunn leikstýrði.

Ari heimsótti Rás 2 á dögunum og söng sigurlag Eurovision frá því í fyrra, lag Salvador Sobral, Amar Pelos Dois í Stúdíói 12.

En hvaðan kemur lagið Heim? „Ég samdi þetta lag fyrir rúmu ári síðan og þessi texti var til hjá mér þannig að ég samdi eiginlega lagið við textann, það er að segja enska textann. Þetta er kraftmikil power-ballaða, vonandi með grípandi viðlagi. Þetta er krefjandi fyrir söngvara að syngja, lagið fer mjög hátt og lágt. En reyndar ekki fyrir Ara,“ segir Þórunn.

Ari bætir við að boðskapurinn í lagi skipti einna mestu máli, hann sé sterkur og eigi erindi við okkur öll. „Það er eitthvað sem við verðum að byrja að kenna okkur sjálfum: sýna samúð, vera með jákvæða styrkingu í staðinn fyrir refsingar og neikvæðni.“ Þórunn bætir við að við höfum öll val um það hvernig við komum fram við hvert annað og minnir á að allir séu í vandræðum með eitthvað og upplifi sársauka, sem komi kannski ekki fram á yfirborðinu.

Keppnin leggst vel í þau, Ari er með henni að hefja innreið sína í poppið. „Þetta er glæsilegur viðburður, keppnin er sterk að því leyti að hún kemur fólki saman, tónlistin er sameiningartákn,“ segir hann.