Samninganefnd Eflingar fundar í kvöld og ákveður hver næstu skrefin í kjaradeilunni við atvinnulífið verða. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að hjá Eflingu hafi þau leyft sér að vera djörf og hugmyndarík um aðgerðir sem hægt er að grípa til. Hún vill hins vegar ekki gefa upp til hvaða aðgerða gripið verður.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Sólveig Anna ræddu stöðuna í vinnumarkaðsdeilunnni í Kastljósi í kvöld. Hægt er að horfa á þáttinn allan í spilaranum hér að ofan.
„Ég get ekki sagt margt á þessum tímapunkti,“ sagði Sólveig Anna, spurð um aðgerðirnar. „Það eru félagsmenn Eflingar sem kjósa um hvort það eigi að fara í verkfall. Við erum búin að vinna mikla vinnu. Ég er svo heppin að hafa öflugt fólk í Eflingu.“
Halldór Benjamín segir að ekki sé hægt að ganga að kröfum verkalýðshreyfingarinnar. Það myndi hafa veruleg áhrif á hagkerfið á Íslandi. „Ef við myndum ganga að þessum kröfum, sem ég tel að sé ekki hægt að gera, þá myndu vextir hækka, húsaleiga myndi hækka, vöruverð myndi hækka og verðbólgan myndi fara á stjá á nýjan leik.“
Konur eigi ekki að sætta sig við að vera ódýrt vinnuafl
Sólveig Anna var spurð að hvaða leyti kröfur þeirra taki mið af stöðunni í hagkerfinu og svaraði því til að kröfugerðin væri mjög vönduð. „Við lítum svo á að okkar kröfugerð sé bara mjög vönduð. Þetta er bara kröfugerð sem miðar að því hér verði hægt að búa fólki slíka tilveru að dagvinnulaun dugi til þess að hafa í sig og á. Við erum komin á svo ótrúlega skrítin stað. Þessi yfirferð Halldórs Benjamíns er einhverskonar lýsing á ógnarástandi gagnvart vinnuaflinu.“
„Ég get ekki með góðri samvisku búið í samfélagi þar sem þær konur sem ég þekki eigi áfram að sætta sig við það að vera ekkert nema ódýrt vinnuafl,“ segir Sólveig Anna. „Ég lít á þessa baráttu sem við erum í núna sem upphafspunkt á bara mjög mikilvægri réttlætisbaráttu sem ég held að verka- og láglaunafólk hafi verið að bíða eftir.“
Halldór Benjamín segir varasamt að ætla að fara fram á of mikið því „það eyðist það sem af er tekið“. Síðustu kjarasamningar hafi verið gerðir í vaxandi hagkerfi sem hafi staðið undir launahækkunum. Nú sé hætta á að farið sé of geyst, „að það sé ekki til innstæða fyrir þeim launahækkunum sem verið er að ræða við samningaborðið“. „Það sem skiptir máli í þessu er ekki hversu margar krónur við fáum í þessum kjarasamningum, heldur hvað við fáum fyrir þessar krónur,“ segir Halldór Benjamín.