Formaður VR segir að ef stjórnvöld fari ekki að taka kröfum grasrótarinnar í verkalýðshreyfingunni alvarlega þá verði hér átök upp úr áramótum sem ekki hafi sést í áratugi. Hann segir auðvelt að stöðva rekstur stofnanna og loka flugvöllum án þess að fara í allsherjarverkfall. Hann boðar aðgerðir strax upp úr áramótum verði ekki búið.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að forustufólk VR, Eflingar, verkalýðsfélags Akraness og Framsýnar á Húsavík hafi rætt um að mynda bandalag um að komið verði á samfélagssáttmála til þriggja eða fjögurra ára sem fæli í sér kerfisbreytingu. Þar yrði tekið á hækkun lægstu launa, persónuafslætti, vöxtum og verðtryggingu svo eitthvað sé nefnd.

„Ef að stjórnvöld fara ekki að taka þessa umræðu og kröfur grasrótarinnar alvarlega þá verða átök hérna upp úr áramótum sem hafa ekki sést í áratugi. Við erum ekki að tala um allsherjarverkföll. Hér er hægt að loka stofnunum með því að ræsta þær ekki í þrjá daga. Hér er hægt að loka flugvöllum með afgreiðslufólkinu, hleðslufólkinu eða þeim sem eru að fylla vélarnar af bensíni. Það er hægt að gera með kannski bara tíu til 20 manns,“ segir Ragnar Þór.

„Við erum vígreif“

Kjarasamningar losna um næstu áramót. Ragnar Þór segir að þessi félög ætli ekki að bíða fram í maí, júní eftir nýjum kjarasamningum. Stjórnvöld og samtök atvinnurekenda verði að taka stöðuna alvarlega.

„Við erum mjög vígreif. Við ætlum að hefja aðgerðir upp úr áramótum eða það verði ekki komið eitthvað á borðuð sem skiptir virkilegu máli fyrir fólkið okkar. Ég er að tala um kerfisbreytingar. Ég er líka að tala um vaxtalækkanir og aðgerðir gagnvart verðtryggingunni. Við erum að tala um ákveðnar kerfisbreytingar á kerfunum okkar sem hafa ekki náðst fram í mjög langan tíma og ég reikna ekki með að við náum þeim fram nema með aðgerðum. Ég held að stjórnvöld og okkar viðsemjendur, ef þeir að taka þessa stöðu ekki alvarlega, ættu að búa sig undir átök,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson

Rætt var við Ragnar Þór, Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, Sólveigu Önnu Jónsdóttur formann Eflingar og Elínu Björgu Jónsdóttur formann BSRB í þættinum Straumhvörf verkalýðshreyfingarinnar sem var á dagskrá  Rásar eitt klukkan eitt í dag. Hlýða má á hann í spilaranum hér að ofan.