Boða nefnd um ritstjórnarlegt sjálfstæði

03.08.2017 - 21:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnendur Vodafone leggja til að þriggja manna nefnd verði skipuð til að standa vörð um sjálfstæði þeirra fjölmiðla sem fyrirtækið eignast við kaupin á 365 miðlum. Fyrirtækið skuldbindur sig til að reka fjölmiðla 365 í þrjú ár að óbreyttu.

Þetta kemur fram í drögum Fjarskipta, móðurfélags Vodafone, að skilyrðum fyrir yfirtöku Vodafone á 365 miðlum. Drögin voru lögð fyrir Samkeppniseftirlitið sem kannar nú hvort heimila eigi samrunann, setja honum skorður eða stöðva út frá samkeppnissjónarmiðum. Kjarninn greindi fyrst frá drögunum. Í þeim er lagt til að fyrirtækið skuldbindi sig til að reka alla fjölmiðla 365 í þrjú ár, nema markverðar neikvæðar breytingar eigi sér stað á markaðsaðstæðum.

Nefndin um ritstjórnarlegt sjálfstæði ætti samkvæmt tillögunni að vera undirnefnd stjórnar Fjarskipta. Lagt er til að stjórnin skipi einn nefndarmann en tveir óháðir nefndarmenn gætu verið kosnir á aðalfundi fyrirtækisins. Nefndinni er ætlað að standa vörð um sjálfstæði ritstjórna, fjölræði og fjölbreytni auk þess að taka við kvörtunum vegna fréttaflutnings eða efnistaka fjölmiðlanna. Koma á í veg fyrir að eigendur, starfsmenn eða stjórnarmenn fjarskipta hlutist til um sjálfstæði ritstjórnanna.

Í drögum Fjarskipta, móðurfélags Vodafone, að skilyrðum fyrir samruna Vodafone og 365 miðla segir að svokallaður mikilvægur sjónvarpsrekstur verði aðskilinn öðrum rekstri Fjarskipta. Það sem fellur undir mikilvægan sjónvarpsrekstur er Stöð 2 og Stöð 2 sport. Þar er því haldið opnu að Fjarskipti fjölgi slíkum mikilvægum innlendum stöðvum en tekið fram að fyrirtækið muni líka reka sjónvarpsþjónustu sem ekki falli undir þetta ákvæði. 

Kveðið er á um að viðskipti fjölmiðlahlutans sem Vodafone eignast nú við aðra hluta Vodafone verði á viðskiptalegum forsendum þar sem tryggt sé að markaðsverð ráði för. Einnig er ákvæði um aðskilnað smásölu og heildsölu Fjarskipta svo upplýsingar fari ekki þar á milli.