Sýningin Desiring Solid Things stendur yfir í Kling & Bang en þar fjalla Elísabet Brynhildardóttir og Selma Hreggviðsdóttir um þrá og löngun eftir efni og hlutum. Gestir Lestarklefans ræddu sýninguna.
Á sýningunni beina Elísabet og Selma sjónum sínum að þeim flóknu tilfinningum sem manneskjan hefur til hluta og efnis en þær hafa um langt skeið unnið saman bæði að sýningum, útgáfum og öðrum myndlistartengdum verkefnum. Samhliða sýningunni kemur út bók sem inniheldur safn ástarbréfa til hlutarins, skrifað af tólf listamönnum og hugsuðum í tilefni sýningarinnar. Gestir Önnu Gyðu í Lestarklefanum að þessu sinni eru þau Páll Óskar Hjálmtýsson tónlistarmaður, Snærós Sindradóttir fjölmiðlakona og Margrét Bjarnadóttir danshöfundur og myndlistarkona.
„Þetta er mjög metnaðarfull sýning, falleg sýning,“ segir Margrét Bjarnadóttir. Hún telur að virkilega vel hafi verið staðið að öllu í kringum sýninguna. „Bókin sem gefin var út er gott dæmi og er hluti af sýningunni. Hún inniheldur ástarbréf til hlutarins, skrifuð af ýmsum listamönnum. Ég hafði annars ekki séð til þeirra Elísabetar og Selmu áður og hafði gaman að sjá þeirra verk á sýningunni. Ég var líka svo heppin að Selma var stödd þar á sama tíma og ég. Ég gat því spurts aðeins til og það dýpkaði upplifun mína. Ég held að það sé mjög gott að fá leiðsögn í gegnum þessa sýningu, álíka sýningar kalla mismikið á leiðsögn en þessi gerir það sannarlega,“ segir Margrét.
Snærós Sindradóttir verkefnastjóri hjá RÚV var sömuleiðis hrifin af sýningunni og taldi stórt blýantteiknað verk á rúðustrikaðan pappír standa upp úr. „Mér fannst það sterkasta verkið. Það vakti upp alls konar hugsanir hjá mér. Það minnti mig á foss og ég fór alveg fram úr mér í pælingum um þessar rúður, var komin inn í Excel-skjal og allt í einu varð þetta að virkjun. Hvernig við reiknum okkur að niðurstöðu og erum allt í einu búin að virkja einhvern fallegan foss. Svo var það bókin, ég hafði heyrt af henni og ég hugsaði áður en ég fór um hvaða hlut ég sjálf myndi skrifa ástarbréf til,“ segir Snærós og deildi með hlustendum sögu af skópari sem hana dreymdi um sem fermingarstúlku. „Ég fékk ekki að kaupa þá. Föður mínum þótti tilhugsunin ekki góð, að ég yrði þetta hærri á fermingarmyndatökunni. Þeir eru þeir fallegustu sem ég hafði séð á ævi minni. Ég fékk þó loforð um að ég mætti kaupa þá fyrir fermingarpeningana mína en þá voru þeir búnir. Ég hef alltaf séð eftir þeim og hugsa um þá í hverri viku,“ segir Snærós.
„Ég fékk sem betur fer líka leiðsögn frá Selmu þegar ég mætti á svæðið og eftir þá byrjun ákvað ég að zena mig út,“ segir Páll Óskar sem naut þess að dvelja á sýningunni í langan tíma og náði eins konar hugleiðsluástandi. „Á sýningunni birtist mynd af Kim Novak í Vertico. Sú mynd er uppáhaldsmynd mín í lífinu en Vertico fjallar um mann sem verður ástfanginn af konu sem er ekki til. Hann leggur líf sitt í rúst fyrir konu sem í raun er eintóm lygi. Í miðri mynd nælir maðurinn í aðra konu, sem líkist fyrirmyndinni talsvert og dúllar sér við að breyta henni - með klæðaburði, hárlit og förðun - í þetta hugarfóstur sitt. Það er hugarfóstrið sem horfir á þig á skjánum á sýningunni og ég bráðnaði þegar ég kom þarna inn. Hversu oft verður maður einmitt ástfanginn af því sem ekki er til, svo eltum við myndina í hausnum og úr verður lestarslys. Listaverkin brotna fyrir framan okkur á gólfinu,“ segir Páll Óskar.
Páll kom í framhaldi inn á skóparið sem Snærós langaði mikið í og sagði að hún gæti hreinlega búið til sína eftirlíkingu af fyrirmyndinni. „Ég geri þetta á hverjum degi. Ég læt mínar fantasíur birtast ljóslifandi fyrir augunum á mér, tveimur mánuðum eftir að þær fæðast í hausnum á mér,“ segir Páll Óskar og glottir glaðhlakkalega. Sýning þeirra Elísabetar Brynhildardóttur og Selmu Hreggviðsdóttur, Desiring Solid Things, stendur fram yfir nýár, eða til 20. janúar í gallerí Kling & Bang.
Lestarstjóri þáttarins var Anna Gyða Sigurgísladóttir. Lestarklefinn er nýr umræðuþættur um menningu og listir sem sendur er út í mynd á menningarvef RÚV klukkan 17.03 á föstudögum. Horfið á eldri þætti í spilaranum.