Blóðugir bardagar í mexíkósku fangelsi

11.08.2017 - 07:23
epa05853487 Police search the area for Juan Jose Esparragoza Monzon alias 'El Negro', the son of drug trafficker Juan Jose Esparragoza alias 'El Azul', at the Arugato prison in Culiacan, Mexico, 16 March 2017. The local Ministry of
 Mynd: EPA  -  EFE
Níu fangar voru drepnir og tveir særðust í blóðugum gengjaátökum í mexíkósku fangelsi á fimmtudag. Átökin brutust út á heimsóknardegi í fangelsinu í borginni Reynosa í Tamaulipas-ríki, nærri bandarísku landamærunum. Föngum úr tveimur glæpagengjum laust þar saman og beittu hvort tveggja bareflum og eggvopnum í bardaganum.

Í tilkynningu frá fangelsisyfirvöldum segir að fangaverðir hafi lagt megináherslu á að verja líf og limi ættingja og ástvina fanganna, sem voru í heimsókn þennan dag. Lögreglulið var sent á vettvang og náði að stöðva átökin, meðal annars með því að skjóta upp í loftið úr byssum síunum. 
Blóðug uppþot, innbyrðis bardagar, hefndarvíg og misjafnlega árangursríkar flóttatilraunir eru daglegt brauð í mexíkóskum fangelsum, þar sem glæpagengi ráða oftar en ekki minnst jafn miklu og fangelsisyfirvöld um framgang mála innan múranna. Þannig voru 28 fangar myrtir með hrottalegum hætti af meðföngum sínum í Acapulco í síðasta mánuði. 
Í fangelsum Tamipaulas-ríkis hefur einnig mikið gengið á það sem af er ári. Þar struku 29 fangar úr fangelsinu í Ciudad Victoria í mars síðastliðnum og í því sama fangelsi týndu sjö lífinu, þar á meðal þrír lögreglumenn, þegar lögregla réðist þar til inngöngu í júní til að berja niður vopnaða fangauppreisn.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV