Ótal sinnum í sögu Íraks sem sjálfstæðs ríkis hafa Kúrdar í norðanverðu landinu reynt að brjótast úr klóm stjórnvalda í Bagdad og krafist sjálfstæðis. Þeim hefur ekki orðið ágengt

Íraskir Kúrdar kusu um það í umdeildri atkvæðagreiðslu á dögunum að lýsa yfir sjálfstæði íraska Kúrdistan frá Írak. Atkvæðagreiðslan var í óþökk stjórnvalda í Bagdad og hefur verið mikil spenna á svæðinu í kjölfar hennar. 

Í ljósi sögunnar á Rás 1 fjallaði um fyrri baráttu íraskra Kúrda fyrir sjálfstæði, sér í lagi uppreisn þeirra á sjöunda áratuginum undir stjórn leiðtogans Mustafas Barzani, föður núverandi leiðtoga íraska Kúrdistan og sjálfstæðishreyfingarinnar, Massouds Barzani.

Uppreisnarleiðtogi frá táningsaldri

Mustafa Barzani leiddi fyrst uppreisnarsveitir Kúrda gegn íröskum yfirráðum þegar hann var á táningsaldri og hann og eldri bróðir hans, höfðingi í ættbálki kenndum við Kúrdaþorpið Barzan, og menn þeirra lentu í átökum við stjórnvöld í Bagdad 1931. 

Uppreisnin mistókst og yngri Barzani-bróðirinn flúði að lokum ofsóknir íraskra yfirvalda til Írans. Þar tók hann þátt í skammlífri tilraun til að stofna sjálfstætt ríki íranskra Kúrda á síðustu árum seinni heimsstyrjaldar, en þegar hún fór út um þúfur flúði hann lengra, til Sovétríkjanna.

Loforð til Kúrda ekki efnd

 Árið 1958 tóku herforingjar völdin í Írak og myrtu konunginn sem þar hafði verið við völd síðan Bretar yfirgáfu landið. Leiðtogi þeirra, Abd al-Karim Qassim, gaf það út í upphafi að í hinu nýja Írak myndu allir þjóðfélagshópar koma að stjórn landsins.

Því bauð hann Barzani og fylgismönnum hans að snúa aftur úr sovéskri útlegð — þar sem þeir höfðu verið í meira en áratug — og lofaði íröskum Kúrdum öllu fögru.

Fljótlega eftir heimkomu fór þó að renna upp fyrir Barzani að Qassim hygðist ekki standa við stóru orðin og að lokum blossuðu upp átök milli stjórnvalda í Bagdad og kúrdískra hersveita á nýjan leik, 1961. 

Eldsprengjur og brennd þorp

Styrjöld íraska stjórnarhersins og Kúrda átti eftir að standa meira og minna næstu fjórtán árin, með nokkrum hléum, og valda dauða að minnsta kosti hundrað þúsund manns. Margir óbreyttir borgarar féllu í linnulausum eldsprengjuárásum íraska flughersins á kúrdísk þorp.

Þó svo að hernaðurinn hafi oft verið Kúrdum í vil lauk átökunum með ósigri Barzanis og manna hans, en Barzanis er þó minnst sem eins af stórmennum kúrdískrar samtímasögu. 

Í þættinum heyrast brot úr viðtali frá 2015 við Erlend Haraldsson prófessor sem ferðaðist um íraska Kúrdistan á þessum tíma og kynntist meðal annars Mustafa Barzani. Viðtalið allt má heyra hér. 

Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudögum klukkan 09:05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18:10.