Blikur eru á lofti í efnahagsmálum og miklu skiptir hvernig brugðist verður við á næsta ári, til að tryggja áfram batnandi lífskjör. Þetta segir forsætisráðherra. Fjármálaráðherra segir að næsta ár snúist um hvort byggður verði grunnur fyrir framtíðina, eða hvort bátnum verði ruggað í ósætti.
Það gustaði um ráðherra ríkisstjórnarinnar í morgun þegar þeir komu til ríkisráðsfundar á Bessastöðum. Ríkisráð kemur alltaf saman á gamlársdag og í því sitja ráðherrar og forseti Íslands.
„Ég á von á því að hann verði með hefðbundnum hætti, og snúist fyrst og fremst um endurstaðfestingu laga sem eru lesin hér upp með mjög formföstum hætti,“ segir Katrín Jakobsdóttir, fjármálaráðherra.
Nú er þetta ár að líða - hvað finnst þér standa upp úr?
„Ég tel þetta hafa verið að mörgu leyti mjög gott ár fyrir íslenskt samfélag. En auðvitað sjáum við bæði blikur á lofti í efnahagsmálum og teikn um að það er að hægjast á vexti í hagkerfinu og það skiptir miklu máli hvernig við bregðumst við á næstu misserum til að tryggja áframhaldandi lífskjarabata. Þannig að það hafa kannski verið stóru tíðindin á árinu hér heima,“ segir Katrín.
Að rugga bátnum
„Hér var mynduð ríkisstjórn til þess að koma stöðugleika á stjórnmálin og mér finnst það hafa tekist vel og að þessir þrír stjórnarflokkar hafi náð utan um þessi mikilvægustu verkefni og komið þeim í farveg. Þetta finnst mér standa upp úr á vettvangi stjórnmálanna,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Hver verða stóru málin árið 2019?
„Ég held að vinnumarkaðsmálin verði auðvitað áberandi framan af árinu,“ segir Katrín. „En ef ég á að nefna mál sem ég held að verði ekki bara stórt á árinu 2019 heldur líka framundan, þá eru það auðvitað loftslagsmálin. Það skiptir miklu máli að við vorum að kynna nýja aðgerðaáætlun og ég á von á því að við sjáum fyrstu ávextina af henni birtast á árinu 2019. Það eru tæknibreytingarnar og þar skiptir miklu máli að við förum að setja okkur skýra sýn um það hvernig íslenskt samfélag ætlar að takast á við þær. Svo held ég að heilbrigðismálin og lýðheilsumálin verði líka mjög stórt mál framundan.“
„Þetta er árið þar sem mikið getur ráðist um það hvort við komum í skjól þessum mikla árangri og byggjum nýjan grunn inn í framtíðina. Eða hvort við ætlum að rugga bátnum í ósætti. Og ég bind vonir við að við fáum góða niðurstöðu,“ segir Bjarni.