Bleikir pelar dýrari en bláir

02.05.2017 - 15:22
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook
Gjafakassi frá Nuk með pela og snuði í bleikum lit er 340 krónum dýrari en alveg eins sett í bláum lit í Krónunni úti á Granda í Reykjavík. Ómar R. Valdimarsson vekur athygli á þessu á Facebook en eins og sést á meðfylgjandi mynd kostar bleika settið 1.990 krónur en það bláa kostar 1.659 krónur.

Myndin var tekin 29. apríl síðastliðinn klukkan 18:55.

Mikil umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum bæði innanlands og erlendis undanfarin misseri um hugtakið bleikan skatt. Það er notað um það þegar vörur sem ætlaðar eru konum eru dýrari en samskonar vörur fyrir karla. Verðlag á rakvélarblöðum hefur oft verið tekið sem dæmi um slíkan mismun. Sömuleiðis hefur verið fjallað um að hárvörur markaðssettar fyrir konur hafi reynst dýrari en þær sem beint er til karla.

 

„Þetta var mannleg yfirsjón,“ segir Sigurður Markússon, framkvæmdastjóri innkaupadeildar hjá Kaupási. Hann segir að blái pelinn hafi lækkað í verði frá birgja og þar sem kerfið hjá Krónunni sé sjálfvirkt hafi verðið aðeins lækkað á bláu pelunum. Sigurður segir að búið sé að bregðast við með því að lækka einnig verðið á bleiku pelunum. „Það er engin bleik verðlagning í Krónunni. Þetta var klaufalegt en gott dæmi um hvað neytendur eru vakandi og hvernig nútímatækni verður til þess að brugðist er hratt við.“

Fréttin hefur verið uppfærð.