Hvítabjörninn sem var í Hælavík á Ströndum um klukkan níu í morgun var felldur rúmum fimm tímum síðar af skyttu í þyrlu Landhelgisgæslunnar. Lent var með hræið af dýrinu á Reykjavíkurflugvelli á sjöunda tímanum í kvöld þar sem Náttúrufræðistofnun tók við því.
Tilkynning um dýrið barst lögreglu um klukkan níu í morgun. Undir hádegi var þyrla Landhelgisgæslunnar send af stað vestur, og hún var komin í Hælavík um klukkan tvö. Þar var farið að svipast um eftir hvítabirninum sem sást skömmu síðar í Rekavík bak Höfn austur af Hælavík.
Dýrið tók á rás þegar það heyrði í þyrlunni - en skytta frá Skotveiðifélagi Ísafjarðar var um borð, og felldi það af 50 metra færi kl. 14.21 í dag.
Önundur Jónsson, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum, stýrði aðgerðum. Hann segir að skyttan hafi skotið úr þyrlunni á ferð og að því er honum hafi sýnst á hárréttan stað í bóginn á dýrinu. Önundur segir að björninn hafi verið mjög sprækur og hlaupið upp fjallshlíðar til að komast undan. Vegna öryggissjónarmiða hafi verið nauðsynlegt að fella dýrið því ef hópurinn hefði misst af dýrinu hefði ekki verið vitað hvar það væri. Þá hefði ekki verið hægt að tryggja öryggi íbúa ef dýrið hefði tekið sig til og synt yfir Ísafjarðardjúpið. Ekki hefði verið vitað hvar dýrði myndi lenda, á Ísafirði, í Hnífsdal eða Bolungarvík.
Enginn var í hættu á þessum slóðum í morgun - en lögreglu tókst hins vegar að stöðva sjö til átta manna hóp sem ætlaði í land í Rekavík í morgun og hefðu getað mætt dýrinu. En hvernig komst það á land? Lítill sem enginn hafís hefur verið nálægt Vestfjörðum að undanförnu. Hjalti J. Guðmundsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir að hafísspöng sé um 50 til 60 sjómílum vestur af landinu og svo virðist sem dýrið hafði farið út á hafís, stakan jaka, og rekið hingað undan straumum og vindum. Jakinn hafi bráðnað undan því og það komist á landi, líklegast við erfið kjör.
Skrokkurinn af bjarndýrinu var fluttur til Ísafjarðar í dag og síðan til Reykjavíkur. Þar tók Náttúrufræðistofnun við honum. Jón Gunnar Ottósson, forstjóri, segir að byrjað verði á því að frysta dýrið í nótt og svo í fyrramálið verði það krufið. Leitað verði af snýkjudýrum og sýni tekin til eiturefnamælingar sem hjálpi til að skilja útbreiðslu eiturefna á norðlægum slóðum. Dýrði verði svo aldursgreint, mælt og vigtað. Jón Gunnar segir að björninn verði seinna fláður og beinin hreinsuð. Beinagrindin verði geymd og dýrið síðan stoppað upp síðar.
Hvítabjörninn sem var felldur í Rekavík Bakhöfn í dag er ekki sá eini sem mætt hefur örlögum sínum þar því í júlí 1917 munu bændur í Hornvík hafa fundið ísbjörn í Hælavík. Róið var eftir honum fyrir Hælavíkurbjarg og sá björn skotinn í Tröllakambi.