Ríkið og Reykjavíkurborg hafa ákveðið að bjóða fram Reykjavík og Ísland sem vettvang fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin 2020. „Við lítum á það sem mikið tækifæri ef það tekst að landa þessu," segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sem er staddur í Sevilla þar sem verðlaun ársins 2018 voru afhent í gær.
Þetta er stærsta kvikmyndaverðlaunahátíð Evrópu og hana sækja árlega allar helstu stórstjörnur evrópskrar kvikmyndagerðar. Hátíðin fer fram í Berlín annað hvert ár og hitt árið í annarri evrópskri borg. Hátíðin í ár fór fram í Sevilla og í dag lagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, inn umsókn þar ásamt fleiri fulltrúum frá ríki og borg.
Förum í þetta til að vinna
Dagur sagðist í viðtali við Birnu Ósk Hansdóttur vera mjög spenntur fyrir þessu. Hann lítur á þetta sem tækifæri fyrir Ísland sem áfangastað en ekki síður fyrir íslenska kvikmyndagerð og skapandi greinar í landinu.
Ertu bjartsýnn?
„Ja, við hefðum ekkert farið í þetta nema til þess að vinna. En auðvitað er ég hóflega bjartsýnn. Við einfaldlega leggjum okkur fram og kynnum Reykjavík sem áhugaverðan stað. Við erum að keppa við aðrar borgir en ég vonast til þess að það beri árangur."
Erum við í stakk búin til að halda svona hátíð?
„Við erum það en auðvitað værum við um leið að sýna bæði sjálfum okkur og öðrum að við gætum tekið að okkur og verið vettvangur fyrir viðburði á þessum skala. Og þar með værum við að bæta við nýrri vídd í viðburði á Íslandi, í Reykjavík, og það er bara markmið í sjálfu sér."
Eitthvað hlýtur þetta að kosta?
„Já, en þegar um svona stóra viðburði er að ræða þá fáum við ýmislegt til baka. Við höfum séð það bara í umræðu um ferðaþjónustu að undanförnu að þó að það hafi gengið vel að byggja okkur upp sem áhugaverðan áfangastað að þá þurfum við að halda vel á spöðunum til að draga að okkur viðburði sem skipta miklu máli, ekki bara fyrir þá sem halda þá heldur fyrir umfjöllun um Ísland og Reykjavík sem áhugaverðan stað til þess að vera á."
Dagur segir að hátíðin geti orðið gluggi inn í Reykjavík og íslenska kvikmyndagerð. „Við höfum auðvitað séð að það er hægt að taka og vinna myndir á heimsmælikvarða heima. Og ég lít á þetta sem sameiginlegt verkefni til að sýna hvað við getum."
Þrír Íslendingar hafa hlotið þessi verðlaun
Meðal tilnefndra í gær voru Halldóra Geirharðsdóttir, fyrir leik sinn í kvikmyndinni Kona fer í stríð, en Joanna Kulig hreppti svo verðlaunin í flokki evrópskra leikkvenna. Þrír Íslendingar hafa áður hlotið þessi eftirsóttu verðlaun. Hilmar Örn Hilmarsson fékk verðlaun fyrir bestu tónlistina í kvikmyndinni Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson, og árið 2000 fékk Björk Guðmundsdóttir verðlaunin sem besta leikkonan fyrir hlutverk sitt í Dancer in the Dark, og Ingvar E. Sigurðsson var valinn besti leikarinn fyrir túlkun sína á Páli í Englum Alheimsins.