Áslaug Baldursdóttir grafískur hönnuður hefur hannað fræðandi og fallegt spil um rúnir og goðafræði.
Spilið er framhald af rannsókn sem Áslaug vann fyrir bókina Bandrún, lokaverkefni hennar úr grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands, þar sem hún endurhannaði rúnaletur og skrifaði um menningararfinn.
Áslaug hefur haft áhuga á rúnum frá unglingsaldri og frá árinu 2006 hefur hún gengið með þessa hugmynd í maganum, að búa til rúnaspil og sýna hvernig rúnirnar og goðafræðin tengjast með beinum hætti.
Spilið er ekki komið í búðir en nokkrar verslanir hafa þegar hringt í Áslaugu og sýnt áhuga á að selja spilið á ensku. Það kom henni nokkuð á óvart en sennilega er verið að hugsa um að ná til erlendra ferðamanna. Áslaug prentar spilið hér á landi og það er nokkuð dýrt í prentun svo þessa daganna leitar hún að stuðningi til að geta prentað fleiri eintök af spilinu. Draumurinn er að spilið nái inní skóla landsins en Áslaugu finnst mikilvægt að við lærum meira um menningararfinn okkar.