Gera á almenningssamgöngum hátt undir höfði við nýjan Landspítala og skapa góða aðstöðu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur til að draga úr bílaumferð. Helgi Már Halldórsson, hönnunarstjóri spítalans, er bjartsýnn á að þetta takist áður en fyrsti áfangi spítalans rís.
Þegar nýr Landspítali verður tekinn í notkun fjölgar starfsmönnum um 1500 frá því sem nú er og verða um 5000. Þriðjungur þeirra er á vakt að jafnaði. Þessu fylgir aukin umferð - en menn eru þó ekki sammála um hversu mikil þessi aukning verður. Áhyggjur hafa komið fram um að stofnbrautir anni ekki umferðinni. Hönnunarstjóri spítalans bendir hins vegar á að umferðarspár Reykjavíkurborgar hafi gert ráð fyrir þessari uppbyggingu um langt skeið.
„Við vinnum hér með í deiliskipulagi fyrir landspítalalóðina þau markmið að almenningssamgöngur verði styrktar enn frekar og þétting byggðar á Vatnsmýrarsvæðinu styður jú við þann möguleika,“ segir Helgi Már.
Þá sé einnig mikil áhersla á góða aðstöðu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, meðal annars með nokkur hundruð reiðhjólastæðum. „Þannig að ég held að það sé nánast einstakt í skipulagi á svæðinu hér að svo mikið sé hugsað um aðra samgöngumáta en einkabílinn og það er auðvitað gert í því skyni að draga úr umferð,“ segir hann.
Helgi Már útilokar þó ekki að breyta þurfi stofnbrautum eitthvað en bendir á að starfsmenn á leið til vinnu séu yfirleitt fyrr á ferðinni en aðrir.
En er raunhæft að styrkja aðra samgöngumáta en einkabílinn svo mikið á þeim sex árum sem líða þar til fyrsti áfangi spítalans verður tekinn í notkun? „Já, við trúum því að á þessum sex árum jafnvel geti orðið breytingar í þessa veruna,“ segir Helgi Már Halldórsson, hönnunarstjóri spítalans.