„Allir feður og allir bræður vita að dætur þeirra og systur eru jafnklárar og þeir en þeir verða að hafa hugfast að það á ekki aðeins við um þeirra eigin dætur og systur,“ sagði Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, í ræðu sinni á hátíðardagskrá á Austurvelli í dag.

„Þetta vissu þeir Hannes Hafsteinn og karlarnir allir sem samþykktu lög um kosningarétt kvenna fyrir einni öld og þetta vita auðvitað allir hugsandi karlar, ekki síður í dag en fyrir 100 árum.“ 

Vigdís minnti unga fólkið á mikilvægi þess að standa vörð um landið og tunguna. Þá væri frelsið og jöfnuðurinn sem Íslendingum væru tryggð í stjórnarskrá hvorugt sjálfgefið. Íslendingar verði að heita því að rækta mannréttindi sem lýðræðið hefur fært þjóðinni í stjórnarskránni og þau mannréttindi sem löggjafinn hefur tryggt henni með margvíslegum lagasetningum. 

Vigdís sagði mikilvægt að hlakka til framtíðarinnar. „Að vita að um aldir hafi verið sagt á Íslandi að öll él birti upp um síðir. Að setja okkur að horfa til hennar björtum augum. Svartsýnin dregur úr okkur þrek, bjartsýni eykur okkur kjark. Og að vita að í framtíðinni leynast ekki aðeins loforð heldur einnig efndir. Annars hefðu konur aldrei fengið kosningarétt á Íslandi. 

 Auk Vigdísar fluttu þau Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis og Fríða Rós Valdimarsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands, ávarp í tilefni dagsins.