Fjármálaráðherra segir að það sé matsatriði hverju sinni hvort stjórnvöld grípi til aðgerða í stöðunni á flugmarkaði en staðan sé enn viðkvæm. Samgönguráðherra segir að ríkisstjórnin sé upplýst um framvindu mála og þau séu undirbúin undir að staðan á flugmarkaði versni.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra segir að það sé slæmt að það sé óvissa varðandi framtíð flugs á Íslandi. Hann vonast til að það komi niðurstaða sem fyrst til þess að óvissunni ljúki. „Við höfum fylgst náið með atburðarásinni í margar vikur og mánuði,“ segir Bjarni.

Sýnist þér að Wow air sé komið fyrir vind? „Ég ætla ekki að segja neitt til um það. ég held að staðan sé mjög viðkvæm enn þá.“ Munu stjórnvöld grípa til einhverra aðgerða í þessum málum? „Það verður að vera matsatriði hverju sinni. Það er ekki hægt að segja til um það hvort það verði þörf á því,“ segir Bjarni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra segir að ríkisstjórnin hafi fylgst með og fengið upplýsingar frá WOW air um hvað sé að gerast á hverjum tíma. „Við höfum verið að undirbúa og meta hvort að það sé ástæða til þess að meta hvort að stjórnvöld hafi einhverja aðra aðkomu að því heldur en það sem við höfum síðan komist að að væri skynsamlegt að við gerðum ekki. Þess vegna er það auðvitað gleðilegt ef það eru einhverjar leiðir færar til að tryggja rekstur WOW til lengri tíma,“ segir Sigurður Ingi.

Sýnist þér að WOW air sé hólpið allavega í bili? „Við skulum vona að þetta endi vel. En ég get ekki tjáð mig um það á þessu stigi. Nú horfir til þess að þetta geti farið á betri veg en við erum undirbúin undir að þetta fari á verri veg. Á meðan flugrekstur í heiminum er eins og hann er held ég að við ættum að hafa ákveðnar áhyggjur af því já,“ bætir Sigurður Ingi við.