Bjarga minjum fyrir framkvæmdir á Dysnesi

14.06.2017 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Á Dysnesi, þar sem víkingasverð fannst í bátsgröf í gær, hefur nú verið opnað stærra svæði til fornleifarannsókna. Minjavörður segir mikilvægt að bjarga minjum áður en ráðist verður í hafnarframkvæmdir á svæðinu.

Sjaldnast gefst fornleifafræðingum tækifæri til þess að elta aðrar vísbendingar en þær sem sjást á yfirborði en vegna fyrirhugaðra hafnarframkvæmda á svæðinu var gerð krafa um að stærra svæði yrði opnað.

„Hérna lá þúst á nesinu, með svona dokk eða holu, sem okkur grunaði að gætu verið ummerki eftir grafarrán eða eitthvað slíkt. Við fórum þá fram á að þetta yrði opnað og það kom í ljós gröf. Í framhaldi af því fórum við fram á að yrði opnað stærra svæði og þá kom í ljós önnur gröf. Þetta er bara í vinnslu núna,“ segir Rúnar Leifsson er minjavörður Norðurlands Eystra.

Stórskipahöfn á Dysnesi

Fyrirtæki og sveitafélög í Eyjafirði áforma að byggja stórskipahöfn á Dysnesi á næstu árum en Rúnar segir fornleifauppgröftinn hluta af undibúningi fyrir framkvæmdirnar.

„Þetta er framkvæmdarannsókn sem Minjastofnun Íslands fór fram á og gerði að kröfu. Hér þarf að bjarga öllum fornminjum áður en frekari framkvæmdir, eða áður en framkvæmdir hefjast öllu heldur,“ segir Rúnar.

Fleiri minjar koma í ljós

Hildur Gestsdóttir fornleifa- og beinafræðingur sem vinnur að rannsókninni á Dysnesi sagði í morgun að fleiri minjar væru að koma í ljós á svæðinu en ekki væri hægt að segja til um hvers konar minjar. Enn er stórt svæði sem á eftir að rannsaka. Ekki liggur fyrir hvort þessar fyrstu niðurstöður fornleifarannsóknar muni hafa áhrif á framkvæmdir á fyrirhugaðri stórskipahöfn.

Hér má sjá myndband Dysnes.is af fyrirhuguðum framkvæmdum. 

Mynd með færslu
Vigdís Diljá Óskarsdóttir
Fréttastofa RÚV