„Hún hreyfir við manni af því að þetta er saga með svo gríðarlega ríkt erindi,“ segir Unnur Ösp Stefánsdóttir leikkona um kvikmyndina Billy Elliot.
Í vetur sýnir RÚV vel valdar kvikmyndir sem hafa valdið straumhvörfum í kvikmyndasögunni. Í þetta sinn segir Unnur Ösp Stefánsdóttir, leikkona, frá kvikmyndinni Billy Elliot frá árinu 2000. Myndin gerist í námubæ á Norður-Englandi 1984 og segir frá ungum dreng sem fer ótroðnar slóðir í íhaldssömu samfélagi þegar hann ákveður að æfa ballett í stað hnefaleika. Myndin var tilnefnd til þrennra Óskarsverðlauna og varð að geysivinsælum söngleik sem sýndur hefur verið víða um heim, meðal annars á Íslandi.
Unnur Ösp sá myndina þegar hún var að hefja leiklistarnám. Hún segir myndina hafa breytt einhverju innra með henni. „Hún hreyfir við manni af því að þetta er saga með svo gríðarlega ríkt erindi. Mér finnst fagurfræði skipta máli og leikur og leikstjórn er afskaplega mikilvægur hluti af kvikmyndagerð. En fyrir mína parta þá er það alltaf erindið sem mér finnst mikilvægast af öllu,“ segir hún.
Það þótti djarft á sínum tíma að gera kvikmynd um ungan dreng sem þráir að gerast ballettdansari. „Hún fjallar um fordóma okkar og fyrir fram ákveðnar hugmyndir um hvernig við eigum að vera og passa í einhverja ramma,“ segir Unnur Ösp. „Ég held að hún hafi líka haft mikil áhrif og gert mikið fyrir heim samkynhneigðra. Ekki síður á hugmyndir okkar um karlmennskuna. Mér fannst hún dásamlega hjartnæm, yndisleg og heillandi mynd með ríkt afþreyingargildi – en fyrst og fremst með þetta mikilvæga erindi.“
Kvikmyndin Billy Elliot verður sýnd á laugardag klukkan 20.40. Hún er hluti af sýningaröð sígildra bíómynda á RÚV sem nefnist Bíóást. Þar eru kvikmyndir sem eiga það sameiginlegt að höfða til breiðs hóps kvikmyndaunnenda og hafa haft áhrif á samtíma sinn og tíðaranda. Hópur kvikmyndaáhugamanna tekur þátt í verkefninu, en einn úr þeim hópi ræðir hverja mynd fyrir sig.