Bílbelti komu í veg fyrir stórslys þegar rúta með tæplega 30 manns valt í vonskuveðri á Kjalarnesi í gær. Lögregla segir að bílstjórar verði að meta sjálfir, hvort þeir aki við slíkar aðstæður.

Tvær rútur fóru út af veginum á Kjalarnesi milli Grundarhverfis og Hvalfjarðarganga á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Nærri 30 voru í annarri rútunni sem fór út af veginum norðan Grundarhverfis og endaði á hliðinni. Tíu voru í hinni rútunni, sem fór út af veginum nær Hvalfjarðargöngum, en valt ekki. Fólkið var flutt í fjöldahjálparmiðstöð í Varmárskóla í Mosfellsbæ.

Aðstæður á Kjalarnesi í gærkvöldi voru mjög slæmar, blindbylur, hálka og lítið skyggni. Hjörvar Sæberg Högnason, framkvæmdastjóri Reykjavík Sightseeing sem á rútuna sem valt, sagði í samtali við fréttastofu í dag að ekkert hafi bent til þess að vindstyrkur væri orðinn það mikill að ekki væri óhætt að vera á ferðinni. Hjá fyrirtækinu gildi skýr viðmið um hvenær ferð skuli stöðvuð vegna veðurs.

„Vesturlandsvegur um Kjalarnes var ekki lokaður þótt þessi gula viðvörun væri í gildi. Og þá er það bara mat ökumannsins sem gildir,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Stærra og erfiðara

Ásgeir segir að enginn hafi slasast alvarlega, þótt einn farþegi hafi rifbeinsbrotnað. Það þakkar hann því að flestir voru í beltum.

„Það virðist vera svo, upplýsingarnar sem við höfum eru þær að flestir farþeganna hafi verið í belti.“

Heldurðu að það hafi bjargað því að ekki fór verr?

„Tvímælalaust. Við hefðum örugglega verið að eiga við stærri og erfiðari atburð ef fólk hefði ekki almennt verið í beltum.“

Mikill viðbúnaður var vegna slyssins í gær. „Þetta gekk mjög vel hjá okkur. Og það hlýtur að teljast nokkuð gott að frá því að við fáum tilkynninguna og þangað til búið er að flytja síðasta mann af vettvangi eru rétt um tveir klukkutímar,“ segir Ásgeir.