Björgunarsveitir sneru í dag við hátt í 50 ökumönnum sem voru á vanbúnum bílum á Jökuldal og var ráðið frá því að halda áfram. Flestir fóru að Skjöldólfsstöðum og bíða veður af sér þar. Vestan megin við Námaskarð var sami háttur hafður á.
Til stóð að um klukkan þrjú yrði bílalestum fylgt af björgunarsveitum bæði austan og vestan að. Framundir kvöld verða svo björgunarsveitarmenn á þessum slóðum til að aðstoða fólk ef þörf verður á. Lögreglan á Húsavík segir að margir hafi verið komnir á sumardekk og illa búnir til ferða.
Dettifossvegur verður áfram lokaður í dag.
Þæfingur er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og á Vopnafjarðarheiði, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Þá er óveður við Kjalarnes og sunnanmegin á Snæfellsnesi. Vegurinn um Öxi er lokaður.
Hér að ofan má sjá myndband sem Sigmar Daði Viðarsson, formaður Björgunarsveitarinnar Jökuls, tók þegar bílalestin var að leggja af stað frá Skjöldólfsstöðum um klukkan 15:30 í dag.