Nokkrir tugir manna biðu í röð fyrir utan herrafataverslun Húrra Reykjavík við Hverfisgötu í alla nótt eftir því að fá að kaupa nýja útgáfu Yeezy-skónna frá Adidas, sem er samstarfsverkefni íþróttavörurisans við tónlistarmanninn Kanye West. Búðin var opnuð klukkan níu í morgun en þeir fyrstu voru mættir í röðina klukkan þrjú í gærdag, að sögn Jóns Davíðs Davíðssonar, annars eigenda Húrra.
Nýju skórnir heita Yeezy Boost 350 V2 Cream White og eru eins og nafnið gefur til kynna rjómahvítir strigaskór. Skórnir komu í sölu um allan heim í dag og Húrra Reykjavík er eina búðin á Íslandi með umboð til að selja þá. Skórnir kosta 29.990, sem að sögn Jóns Davíðs er staðlað verð auk virðisaukaskatts. Miklar kvaðir hvíla á þeim sem fá umboð til að selja skóna – álagningin er til dæmis ekki frjáls, ekki frekar en fyrirkomulagið á sölunni.
Þetta er í fimmta sinn sem röð myndast fyrir utan Húrra Reykjavík nóttina áður en Yeezy-skór eru teknir til sölu. Að sögn Jóns Davíðs mættu fyrstu menn um klukkan þrjú í gærdag og um kvöldmatarleytið í gær – rúmum tólf tímum fyrir opnun búðarinnar – voru um 40 manns sem biðu í röðinni.
Veðrið var ekki eins og best hefði verið á kosið í nótt en Jón Davíð segir að menn hafi ekki látið það á sig fá. „Þeir voru í svefnpokum og góðum úlpum og föðurlandi. Svo komu einhverjir með svona partítjöld til að tjalda yfir mannskapinn.“
Ferðamenn frá öllum heimshornum í röðinni
Hann segir að þegar búðin var opnuð í morgun hafi á bilinu 150-200 manns verið í röðinni og 30-40 í röðinni fyrir utan kvenfataverslunina þeirra ofar á Hverfisgötunni. Stelpurnar létu sér nægja að mæta snemma morguns.
Fólki var hleypt inn báðar búðir í 10 manna hollum, búið var að afgreiða raðirnar um klukkan 11 og að lokum segir Jón Davíð að allir hafi fengið skó, þótt mögulega hafi einhverjir misst af sinni stærð. Hann segist ekki mega gefa upp hversu mörg pör komu til landsins, en segir að það hafi þó verið slatti og bendir á að hér á landi fari öll pörin í sömu búðina, á meðan þau dreifist til dæmis á fimm til sex búðir í Danmörku og tíu til tuttugu búðir í Bretlandi. Heildarupplagið af skónum í heiminum öllum er á bilinu 30 til 35 þúsund pör.
Jón Davíð segir að í þetta sinn hafi verið töluvert af útlendingum í röðinni. „Þeir voru alls staðar að úr heiminum – frá Bandaríkjunum, Suður-Kóreu, Kína og víðar – og voru búnir að bíða hérna í alla nótt.“ Þetta hafi verið ferðamenn sem hafi séð tilkynninguna frá Adidas um að skórnir væru á leið í sölu og fundið útsölustaðinn hér.
Þekkt er að skór sem framleiddir eru í takmörkuðu upplagi geta hækkað í verði um leið og menn ganga með þá út úr búðinni. Jón Davíð segist hins vegar ekki geta áætlað hversu stór hluti þeirra sem keyptu rjómahvítu skóna í morgun hafi gert það til að græða á þeim í endursölu. „Það er ómögulegt að segja en ég held nú samt að flestir séu að kaupa þá til að ganga í þeim eða safna þeim upp í skáp.“