„Við minnum bara fólk á að nauðga bara heima hjá sér í Vestmannaeyjum“ voru lokaorð Margrétar Erlu Maack dagskrárgerðarmanns í morgunþætti Rásar 2 í morgun. Aðspurð um orð sín segir Margrét að vissulega hafi verið um að ræða grimma kaldhæðni.

Slík kaldhæðni skilar sér ef til vill illa í útvarpi en öllum hefði átt að vera ljóst að þarna var verið að skjóta á þann ljóta veruleika sem einkennir orðræðu stjórnvalda. 

Orð lögreglustjórans í Vestmannaeyjum í fréttum Stöðvar 2 urðu kveikjan að ummælum Margrétar. Þar sagði lögreglustjórinn að flestar nauðganir ættu sér stað á milli tveggja einstaklinga í lokuðum rýmum, þangað sem fólk færi yfirleitt sjálfviljugt. 

Margrét ritaði síðar afsökunarbeiðni á Facebook-síðu sinni:

Ég biðst afsökunar á ósmekklegum ummælum í Morgunútvarpinu í morgun. Ég fór yfir strikið í beinni útsendingu. Ég á það til að fara fram úr sjálfri mér þegar umræða um kynferðisbrot er annars vegar, en þessi ummæli voru ekki boðleg í beinni útsendingu í Ríkisútvarpinu.

Frank Hall, dagskrárstjóri Rásar 2, sagði í samtali við fréttastofu að málinu væri lokið. Hann sagði að þau hefðu rætt málin, hún hefði séð eftir orðum sínum og væri búin að biðjast afsökunar á þeim.