Áætluð brottför til Tel Aviv er í fyrramálið og Hataraflokkurinn pakkar í töskur. Felix Bergsson segir að von sé á miklu áreiti alla ferðina enda er stemningin fyrir íslenska framlaginu sérstaklega mikil í ár og fólk spennt að sjá hvort Hatari eigi eftir að valda usla og rugga bátnum úti í Ísrael.
Felix Bergsson, fararstjóri íslenska hópsins sem heldur utan til Tel Aviv í fyrramálið til að taka þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, er kominn langleiðina með að pakka og er tilbúinn í ferðalagið. Farangur Felix er þó ívið léttari og umfangsminni en Hataramanna því hann tekur með sér léttan klæðnað fyrir 30 stiga hita en Hatarahópurinn hefur meðferðis ógrynni af níðþungu latexi, göddum og keðjum.
„Hatari hefur þurft að láta hanna mikið af fatnaði, nýjan klæðnað fyrir allar mögulegar uppákomur svo þau eru með mjög þungar töskur,“ segir Felix. Fatahönnuðir hópsins eru þau Karen Briem, sem upp á síðkastið hefur meðal annars hannað búninga fyrir Þorleif Örn Arnarsson í Þýskalandi, og Andri Hrafn Unnarsson.
Appelsínuguli dregillinn
„Fyrir utan sviðsbúningin þarf hópurinn að vera með föt til skiptanna fyrir hinar ýmsu uppákomur. Það verður til dæmis spennandi að sjá hverju þau koma til með að klæðast á rauða dreglinum, sem er reyndar appelsínugulur úti,“ Segir Felix. Hópurinn hefur vakið mikla athygli utan landssteinanna og verið mikið í fréttum en margir eru spenntir að sjá hvort þau eigi eftir að valda einhverjum usla í keppninni.
Lítill tími fyrir slökun
Það er mikið umstang í kringum keppnina ár hvert en Felix segir að það sé alltaf sérstaklega mikið álag þegar vel gengur og þegar landinu er spáð góðu gengi. Selma Björnsdóttir rifjaði upp í þættinum Alla leið á dögunum þegar hún fór sjálf til Ísraels árið 1999 í góðri trú um að tækifæri gæfist til að slappa af og sóla sig. Þá var stemningin svo góð fyrir íslenska framlaginu að hún fékk ekki frið. Eftirminnilega lenti hún í öðru sæti það árið en hin sænska Charlotte Nilsson rétt marði hana í lokastigunum. Nú er svipuð stemning fyrir íslenska framlaginu svo það er nokkuð ljóst að þetta verður engin slökunarferð fyrir Hatara. „Okkur er spáð sjötta sæti samkvæmt veðbönkum og við höfum verið þar um nokkurt skeið en fórum hæst upp í fjórða sæti. Við erum að slást svolítið við strákinn frá Sviss, Svíann og Kýpur en langhæstur er Hollendingurinn samkvæmt veðbönkum þó það skilji það ekki nokkur maður.“
Enginn öruggur upp úr undanúrslitunum
Felix fullyrðir að þrátt fyrir þennan mikla meðbyr þá geti Íslendingar ekki gengið út frá því að komast í úrslitin. „Við látum nú bara hverjum degi nægja sína þjáningu í því,“ segir Felix. „Það getur svo margt gerst. Eins og ég hef alltaf sagt þá er þetta spurning um þrjár mínútur og 45 sekúndur. Það skiptir miklu máli hvað Gísli Marteinninn frá hverju landi fyrir sig segir á undan laginu. Ef hann segir: „Jæja, búið ykkur undir flugeldasýningu, hallið ykkur fram í stólnum og sjáið hvað Ísland hefur fram að færa,“ þá gerir fólk það. Ef hann hins vegar segir fólki að búa sig undir leiðindi þá fer fólk bara og fær sér kaffibolla. Ekki gleyma því að flestir eru að sjá þetta í fyrsta skipti.“
Glæsileg leikmynd og eldur á sviðinu
Felix segir að helsta markmið hópsins sé að sjá til þess að ná fram ákveðnum vá-faktor og að áhorfendur fái almennilega gæsahúð. „Ekki gleyma því að það eru ekki þau sem líkar ekki við lagið sem skipta máli, það er nefnilega fjöldinn allur sem elskar það og það eru þau sem telja. Ég nefni í þessu samhengi oft frægu skeggjuðu dívuna frá Austurríki Conchitu Wurst. Hún var ekki ofarlega á lista í veðbönkum en þegar maður sá hana á sviðinu var enginn vafi hver myndi vinna.“ Um tilvonandi sviðsframkomu Íslands segir Felix: „Það verður flott leikmynd, eldur og ýmislegt fleira. Bíðið þið bara.“
Rætt var við Felix Bergsson í Mannlega þættinum en hlýða má á innslagið í spilaranum hér fyrir ofan