Besti flokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn mælast með svipað fylgi í borginni og fengu jafn marga borgarfulltrúa kjörna ef gengið yrði til kosninga nú, eða fjóra. Þetta er niðurstaða þjóðarpúls Gallup.
Rannsóknarskýrsla Alþingis virðist hafa mikil áhrif á viðhorf fólks til stjórnmála. Sjálfstæðisflokkurinn tapar sex prósentustigum á landsvísu eftir skýrsluna frá fyrri könnun, en fylgi Vinstri grænna eykst um fjögur prósentustig á sama tíma. Tæplega 23% aðspurðra myndu kjósa Samfylkinguna nú og næstum 14% Framsóknarflokkinn. Þá mælist Hreyfingin með 3,6% og Frjálslyndir og Borgarahreyfingin með 1,5%.
Nú eru fjórar vikur til sveitarstjórnakosninga og fylgi flokkanna í borginni hefur breyst töluvert. Samfylkingin mælist með 28% fylgi í Reykjavík, og bætir við sig tveimur prósentustigum frá fyrri könnun. Sjálfstæðisflokkurinn tapar mestu fylgi allra flokka, var með 35% en mælist nú með 27%.
Besti flokkur Jóns Gnarr eykur enn fylgi sitt og nú segjast 24% borgarbúa nú styðja flokkinn. Vinstri grænir auka fylgi sitt um þrjú prósentustig, það mælist nú 16%. Framsóknarflokkurinn bætir aðeins við sig, fer úr þremur prósentum í fjögur. Framboð Ólafs F. Magnússonar mælist með um 1% fylgi.
Þetta þýðir að Sjálfstæðisflokkurinn fengi nú fjóra borgarfulltrúa - Samfylkingin fimm - Vinstri grænir tvo - Besti flokkurinn fjóra en Framsókn engan.
Hanna Birna Kristjánsdóttir rekur fylgistap Sjálfstæðisflokksins til umræðunnar í kjölfar rannsóknarskýrslunnar.
Jón Gnarr leiðtogi Besta flokksins segir niðurstöðu þjóðarpúlsins góða byrjun, en flokkurinn stefni hærra. Flokkurinn stefnir að hreinum meirihluta í Reykjavík.
Jón Guðni Kristinsson ræddi við Birgi Guðmundsson stjórnmálafræðing og lektor á Akureyri, í Speglinum í kvöld. Hlusta