Besti flokkurinn fær sex borgarfulltrúa, Sjálfstæðisflokkurinn fimm, Samfylkingin þrjá og Vinstri græn einn samkvæmt nýrri fylgiskönnun Capacent sem gerð var fyrir Ríkisútvarpið. Flestir vilja sjá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í borgarstjórastól. Tæplega 39% þeirra sem taka þátt í könnuninni segjast mundu kjósa Besta flokkinn. Tæp 30%, Sjálfstæðisflokkinn og 21% styður Samfylkinguna. Aðrir flokkar njóta mun minni stuðnings í borginni. Tæp 6% styðja Vinstri hreyfinguna grænt framboð, 3,5% styðja Framsóknarflokkinn. Önnur framboð ná ekki einu prósenti. Óákveðnir voru tæp12%, tæp 6% ætla að skila auðu eða ekki að mæta á kjörstað og tæpt 1,5% neitaði að svara.
Samkvæmt þessu taka Jón Gnarr, Einar Örn Benediktsson, Óttarr Proppé, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Karl Sigurðsson og Eva Einarsdóttir sæti í borgarstjórn fyrir Besta flokkinn. Fyrir Sjálfstæðisflokk þau Hanna Birna Kristjánsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson sem fá sæti. Fyrir Samfylkingu yrðu það þau Dagur B. Eggertsson, Oddný Sturludóttir og Björk Vilhelmsdóttir, auk Sóleyjar Tómadóttur frá Vinstri hreyfingunni grænu framboði.
Sjálfstæðisflokkurinn missir samkvæmt þessari könnun 2 borgarfulltrúa frá því í kosningunum 2006 þegar flokkurinn var með 7 fulltrúa. Samfylkingin og Vinstri græn missa einn fulltrúa hvor flokkur. Frjálslyndi flokkurinn og Framsóknarflokkurinn detta út úr borgarstjórn. Flokkarnir voru með einn mann inni hvor árið 2006.
Tæp 38% þeirra sem svara könnuninni segjast myndu vilja fá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem borgarstjóra á næsta kjörtímabili. Rúm 26% vilja Jón Gnarr í borgarstjórastólinn og rúmlega 23 af hundraði vilja Dag B. Eggertsson í embættið. Aðrir frambjóðendur fá 2% eða minna.
Áttahundruð og þrír, eða tæplega 60% þeirra sem leitað var til, svöruðu Capacent í net- og símakönnun sem gerð var dagana 25. til 27. maí.