Bernskan myndar kjarna sérhvers manns.

09.05.2017 - 14:03
Í þættinum Bók vikunnar verður að þessu sinni endurtekin umfjöllun um fyrstu og hingað til einu skáldsöguna sem komið hefur út í íslenskri þýðingu eftir Nóbelsverðlaunahafan í bókmenntum árið 2014, Patrick Modiano. Patrick Modiano fæddist í París stríðslokaárið 1945. Faðir Modianos var gyðingur af ítölskum og grískum ættum en móðirin leikkona upprunnin í Belgíu. Fjölskyldulíf Modiano fjölskyldunnar var afar laust í reipunum og það segir sína sögu að faðirinn komst ágætlega af á stríðsárunum.

Patrick Modiano hefur sent frá vel á þriðja tug bóka sem líta má á sem heildarverk, minningarverk í ætt við Leitina að glötuðum tíma eftir Marcel Proust. 

Hér má heyra þýðanda bókarinnar, Sigurð Pálsson, lesa upphaf bókarinnar og segja frá inntaki hennar og aðferðum Modianos. Sigurður kynntist verkum Modianos skömmu eftir að hann kom til náms í Frakklands, eða í kringum árið 1970. Hann lét strax heillast af einföldum en um leið svo margræðnum stíl hans og hefur fylgst með verkum hans alla tíð síðan.

Fyrsta skáldsagan sem Patrick Modiano sem kom út hjá hinu virta Gallimard forlagi árið 1968, La Place d´etoile, fjallar einmitt um karlmann sem er gyðing og sem með vægast sagt útsmognum aðferðum tekst að lifa af ofsóknir stríðsáranna gegn Gyðingum. 

Fyrsta bók Modianos í íslenskri þýðingu Svo þú villist ekki í hverfinu hérna er bók vikunnar og sunnudaginn, 14. maí  ræðir Eiríkur Guðmundsson í samnefndum þætti á rás 1 við þau Torfa Tuliníus og Birnu Bjarnadóttur um bókina.

 

Mynd með færslu
Jórunn Sigurðardóttir
dagskrárgerðarmaður
Bók vikunnar
Þessi þáttur er í hlaðvarpi