María Pálsdóttir fékk þá hugmynd fyrir nokkru að breyta gamla berklahælinu að Kristnesi í Eyjafirði í safn um sögu berkla á Íslandi. Safnið á að vera sjónrænt ferðalag um missi og dauða en líka um von og lífsvilja.
Á Kristnesi var vígt berklahæli árið 1927 en í dag er þar rekin endurhæfingarstöð frá Sjúkrahúsi Akureyrar. Margrét fékk að taka minna húsnæði á svæðinu í fóstur og vinnur nú í því að gera það upp. Fyrsta skrefið var tekið síðastliðið sumar þegar hún opnaði þar kaffihús og nú er hafin söfnun á Karolinafund þar sem takmarkið er sett á að opna safn næsta sumar. Á síðu söfnunarinnar kemur fram að safnið eigi að vera sjónrænt ferðalag um veikindi, missi og dauða, en líka um von, bjartsýni og lífsvilja.
„Fyrst var ég ekki alveg viss hvað ég ætti að gera þarna en berklarnir komu strax upp í hugann því það er saga staðarins. En það var flókið því þetta er ekki beint huggulegt umfjöllunarefni,“ segir María og tekur undir það að þó að sagan sé sár þá ætti hún ekki að gleymast.
„Ég var svo hissa þegar ég fór að grúska í þessu að þetta tengist inn í nánast hverja einustu fjölskyldu á landinu. Það hafa allir einhverja sögu af nákomnum sem glímdu við berkla. Þetta er dapurleg saga og svakalegur sjúkdómur en það er eins og þetta hafi verið þaggað niður. Ég skil núna af hverju fólk var ekkert að gaspra um að það hefði verið með berkla, því það upplifði svo mikla höfnun.“
Rætt var við Maríu í Víðsjá og hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.