Berghlaupið í Öskju er að líkindum hið langstærsta hér á landi í margar aldir. Þau hlaup sem orðið hafa á liðnum áratugum komast ekki í hálfkvisti við þau ósköp sem gengu á í Öskju.

Berghlaup sem varð við Steinholtsjökul norðan við Eyjafjallajökul 1967 er talið hafa verið um 15 milljónir rúmmetra.  Önnur skriðuföll eru miklu minni. Ármann Höskuldsson jarðeðlisfræðingur áætlar að bara það sem fór alla leið niður í Öskjuvatn í gær, hafi verið tuttugu og fjórar milljónir rúmmetra,  og flóðbylgjurnar nálguðust hæð Hallgrímskirkju.

Þá er öll hrúgan ofan vatns ótalin, að líkindum annnað eins eða meira.  Forn berghlaup eru hins vegar sjáanleg víða um land, td. Vatnsdalshólar, dyngjan ofan við Hraun í Öxnadal og Kollafjarðarhlaup í Esjunni, sem blasir við Reykvíkingum.

Gjörbreytt landslag er nú víða á því svæði sem hamfarirnar við Öskjuvatn urðu. Vatnsbakkinn hefur skolast burt á stóru svæði og kennileiti við vatnið eru óþekkjanleg. Þannig lýsir Bergþóra Kristjánsdóttir, eigandi fyrirtækisins Geo Travel, því sem fyrir augu ber. Hún segir að tugir ferðamanna hefðu hæglega getað lent í flóðbylgjunni sem gekk á land við Öskjuvatn í kjölfar framhlaupsins úr suðausturhlíðum Öskju.