Bensínverð kann að hækka um allt að 10 krónur um áramótin. Álögur ríkisins hækka um nærri 5 krónur og olíufélögin er undir meðalálagningu síðustu tveggja ára.
Heimsmarkaðsverð á bensíni hefur hækkað mjög að undanförnu, og síðustu dagana fyrir jól hækkaði það um 5%. Enda hækkuðu olíufélögin hér útsöluverð á bensíni á Þorláksmessu.
Greiningardeild Arion-banka reiknaði út fyrir fréttastofu breytingarnar á hlut álagningar af verði lítra af bensíni með þjónustu síðastliðin 2 ár.
Í desember 2008 kostaði bensínlítrinn á heimsmarkaði 27 krónur en núna er hann nærri þrefalt dýrari eða 72 krónur. Álagning ríkisins hefur hækkaði mikið á tímabilinu og fór úr 59 krónum í 97. En ríkið hækkaði vöru- og vegagjöld í janúar í fyrra, aftur í júní og í janúar á þessu ári. Hlutur olíufélaganna var 60 krónur fyrir sléttum tveimur árum. Hann hefur sveiflast mikið og rokkað á milli 50 og 45 króna, en þannig stendur hann nú. Bensínlítrinn kostaði því 146 krónur fyrir tveimur árum en kostar nú 214 krónur.
Ef við skoðum nánar álagningu olíufélaganna þá var hún 35% í ársbyrjun 2009 en er nú 27%. Meðal álagning á tímabilinu er rúm 30%. Ef olíufélögin ætla sér að halda því er viðbúið að bensínlítrinn hækki um allt að 7 krónur. Við það bætist að ríkið hyggst hækka álögur á bensín um samtals nærri 5 krónur um áramótin.