Eldsneytisverð hefur ekki verið hærra í fimm ár og munar nú 35 krónum á hæsta og lægsta verði á bensínlítra á höfuðborgarsvæðinu. Árið 2017 hækkaði eða lækkaði bensínverð meira en hundrað sinnum.

Meðalverð á bensínlítra hefur ekki verið hærra hér á landi frá 2014 samkvæmt tölum Gasvaktarinnar. Tvennt er ráðandi hér á landi í þróun eldsneytisverðs - heimsmarkaðsverð á olíu og gengi íslensku krónunnar. Formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda, Runólfur Ólafsson, segir að ýmislegt annað skipti líka máli. „Á móti kemur að samkeppni á markaðnum hefur aukist, við sjáum það að það eru mjög breytileg verð. Til að mynda, hér á höfuðborgarsvæðinu, þá er munurinn á hæsta og lægsta verði yfir 35 krónur og það er svona jákvætt í sjálfu sér, það er samkeppni hvað það snertir. Núna eru komnir fleiri leikendur inn á sviðið,“ segir hann. Eins séu margir sem fái afsláttartilboð, bæði fyrirtæki og í einhverjum tilvikum einstaklingar og aðrir rekstraraðilar líka. 

Árið 2010 skreið verðið yfir 200 krónur á lítra og var hæst árið 2012 þegar það var 266 krónur. Það fór svo lækkandi á ný og var árið 2016 komið niður í 204 krónur. Í fyrra fór það aftur hækkandi og í vikunni var það 234 krónur, tala sem sást síðast á haustmánuðum 2014.

 

Árið 2015 breyttist bensínverðið ellefu sinnum. Árið 2016 breyttist það hins vegar 75 sinnum en aldrei stórvægilega. Árið 2017 breyttist verðið 103 sinnum og það ár opnaði Costco útibú á Íslandi. Í fyrra breytist verðið 73 sinnum og það sem af er ári hefur það breyst 41 sinni. 

Runólfur telur alveg ljóst að þessar öru breytingar geti hvorki verið hagkvæmar né talist eðlilegir viðskiptahættir. „Nei og líka þetta getur líka ruglað neytendur í ríminu þannig fólk hættir að fylgjast eins vel með en það er ósköp eðlilegt að verðið breytist ef að heimsmarkaðsverðið er að breytast, ef gengi bandaríkjadals er að breytast og svo framvegis.“ Runólfur segir að það sé aukinn skjálfti á markaðinum og fyrirtæki tilbúin að vera samkeppnishæfari og breyti þá verðum örar verði vart við að neytendur snúi sér annað.