Beita nýrri tækni við vöktun bjargfugla

11.05.2017 - 15:50
Mynd með færslu
Time-Lapse myndavél í fuglabjargi í Grímsey  Mynd: Þorkell Lindberg Þórarinsson
Starfsmenn Náttúrustofu Norðausturlands beita nú nýrri tækni við að mæla varpárangur bjargfugla. Sjálfvirkum myndavélum verður komið fyrir í fimm fuglabjörgum og taka myndir á klukkustundar fresti árið um kring.

Með þessu verður hægt að fylgjast náið með öllu atferli fugla í þeim björgum sem myndavélarnar ná til. Tilgangurinn er að mæla varpárangur fjögurra tegunda bjargfugla með mun meiri nákvæmni en áður hefur verið hægt. Mest áhersla er lögð á tegundirnar langvíu og stuttnefju.

Fimm vélar settar upp fyrir sumarið

Aðalsteinn Örn Snæþórsson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Norðausturlands, segir að ein myndavél hafi fyrst verið sett upp í Skoruvíkurbjargi á Langanesi til reynslu og gefist vel. Nú sé búið að bæta við vélum í Vestmannaeyjum og Grímsey og þá eigi eftir að setja upp myndavélar í Látrabjargi og Hælavíkurbjargi. „Við reynum að velja staði fyrir myndavélarnar þar sem við náum myndum af sem flestum tegundum fugla,“ segir Aðalsteinn. „Sjáum vel í bjargið og getum greint tegundirnar vel. Við viljum ekki taka risastór bæli, en tökum frekar minni syllur. Þá er auðveldara að greina varpfugla.“

Hægt að fylgjast nákvæmlega með fuglinum

Hann segir að með því að taka mynd á klukkutíma fresti sé hægt að sjá hvaða fuglar eru þaulsetnir og þar af leiðandi varpfuglar. „Síðan er hægt að fylgjast með hversu margir verpa og hvernig sá framgangur er, hverjir koma upp ungum og hverjir ekki. Við getum séð ungana áður en þeir yfirgefa bjargið og þá um leið vitum við hvað hefur misfarist.“ Með þessari tækni segir Aðalsteinn einnig hægt að fylgjast með hvenær fuglinn sest upp á vorin og yfirgefur björgin í lok sumars.

Myndvélarnar verða í gangi allt árið og Aðalsteinn segir að undir haustið verði myndir sóttar úr vélunum og unnið úr gögnunum. „Það verður vetrarvinnan okkar að vinna úr þessu.“

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV