„Það er mest að gera á höfuðborgarsvæðinu. Síðustu klukkustundina höfum við fengið beiðni um aðstoð á einnar til tveggja mínútu fresti," segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu.
Björgunarsveitarfólk hefur verið önnum kafið við verkefni víða um land. Samhæfingarstöð Almannavarna í Skógarhlíð hefur verið virkjuð.
Þakplötur fjúka í miðborginni
Ekkert lát er á veðurofsanum. Á höfuðborgarsvæðinu hafa þakplötur, girðingar, stillansar, tengivagnar og gámar fokið svo fátt eitt sé nefnt.
Björgunarsveitarmenn hafa haft í nógu að snúast í miðborg Reykjavíkur. Sjór gengur yfir Sæbrautina og þar er varasamt að vera á ferli.
Þá hafa þakplötur verið að fjúka. Þak á húsi við Laugaveg hefur rifnað af að hluta og hefur Laugavegi, milli Klapparstígs og Bergstaðastrætis verið lokað vegna þessa. Björgunarsveitir af Suðurnesjum og úr Árnessýslu hafa verið kallaðar út til aðstoðar í borginni en þar eru nú um 150 til 170 björgunarsveitarmenn að störfum og hafa þeir sinnt 260 útköllum í dag.
Björgunarsveitarmenn festa þakplötur við Laugarveg. Mynd: Malín Brand
Mjög hvasst er nú á Kjalarnesi og ekkert ferðaveður. Verið er að festa þakplötur í iðnaðarhverfinu á Esjumelum. Meðalvindhraði á Kjalarnesi er 35 metrar á sekúndu en fer upp í 50 metra á sekúndu í mestu hviðunum.
Björgunarsveitir koma heilbrigðisstarfsmönnum til og frá vinnu
Á Austurlandi er allir fjallvegir ófærir og víða mikið fannfergi í byggð. Íbúðagötur eru orðnar þungfærar ef ekki ófærar en reynt er að halda aðalgötum opnum. Björgunarsveitin Hérað hefur verið á ferðinni á snjóbíl á Egilsstöðum frá því í nótt. Hún hefur aðstoðað fólk og ferjaði heilbrigðisstarfsmenn til og frá vinnu. Á Reyðarfirði eru bæjarstarfsmenn hættir að moka í bili en þar er glórulaus bylur og sér ekki milli húsa.
Á sunnanverðum Austfjörðum er svo hvasst að ekkert ferðaveður er af þeim sökum. Vindur er svo sterkur á Suðausturlandi að klæðning flettist af vegi í Hornafirði sunnan við Almannaskarð. Björgunarfélag Hornafjarðar hefur verið að síðan í nótt.
Mikil ófærð er á Egilsstöðum. Mynd: Rúnar Snær Reynisson
Björgunarsveitir á Reyðarfirði, Eskifirði og Fáskrúðsfirði hafa verið að keyra starfsfólk Alcoa Fjarðaáls til vinnu í bæði gærkvöld og í morgun á stórum jeppum.
Nær allsstaðar ófært milli staða og sums staðar innanbæjar
Fyrir norðan er mikill vindur og blindbylur. Það hefur snjóað mikið og allir fjallvegir á Norðurlandi eru ófærir og nær allsstaðar ófært á milli staða. Þá er færð innanbæjar farin að þyngjast mikið og eftir því sem liðið hefur á morguninn er fólk farið að skilja bíla eftir, sem veldur enn meiri vandræðum.
Allt er á kafi í snjó á Akureyri. Mynd: RUV
Rétt fyrir hádegi kom tilkynning frá Strætisvögnum Akureyrar, en miklar tafir hafa orðið á akstri flestra strætisvagna og aukavagnar hafa verið ræstir út og dugur ekki til. Reiknað er með að aksti strætisvagna verði hætt þegar grunnskólum lýkur í dag.
Versta veður í Vík í áratugi
Bryndís Fanney Harðardóttir, í svæðisstjórn björgunarsveitanna segir að ástandið hafi verið mjög slæmt í Vík í tvo þrjá tíma. Björgunarsveitir hafi verið að störfum á stóru svæði. Hún segir að það sé lítið um lausamuni, þá sé fólk að mestu búið að taka inn eða festa niður. Nokkuð sé um skemmdir á húsum, þakplötur séu að losna og þakkantar af húsum og bílskúrum. Bryndís segir langt síðan veðrið hefur verið svona vont. „Það er langt síðan það hefur verið svona slæmt að fara þurfi út um allan Mýrdal. Það er í áratugum talið."
Rafmagn fór af Vík í morgun. „Rafmagnið er búið að vera ansi óstöðugt. Það fór strax í gærkvöldi og síðan hefur varla verið hægt að nota það í morgun. Rafmagnið hefur verið að koma og fara og er ekki á núna. Við náum því ekki netsambandi eða neinu," segir Bryndís. Tveir rafmagnsstaurar brotnuðu við Pétursey.
Eitt útkall á Vesturlandi, ekkert á Vestfjörðum
Björgunarsveitarmenn voru einu sinni kallaðir út á Akranesi í morgun og er það eina útkallið vegna veðurs á Vesturlandi og Vestfjörðum í morgun. Þó er meira og minna ófært á öllum fjallvegum á Vestfjörðum.