Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, segir mikilvægt að rannsaka hvernig staðið var að vistun fatlaðs fólks á vistheimilinu að Bitru á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Hún segir ekki nóg að dómsmálaráðherra harmi hvernig komið var fram við vistmann sem lýsti reynslu sinni. Vistmaðurinn fyrrverandi hafi ekki beðið um vorkunn heldur viðurkenningu á illri meðferð og uppreisn æru sinnar.

„„Ég tel að það sé mjög mikilvægt að komast til botn í því sem fór þarna fram og að þeir fái viðurkenningu á því að það hafi verið farið illa með þá eins og Ólafur segir,“ sagði Bryndís í kvöldfréttum í sjónvarpi. Hún vísaði þar til orða Ólafs Hafsteins Einarssonar sem hefur lýst harðræði og slæmum aðbúnaði á Bitru á níunda áratugnum.

„Það er alls ekki nóg,“ sagði Bryndís um ummæli dómsmálaráðherra. „Ólafur var ekki að biðja um einhverja vorkunn. Hann var að biðja um viðurkenningu á því að það hefði verið farið illa með hann og fá uppreisn æru sinnar. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að það verði farið ofan í saumana á þessari vistun á sveitaheimilum sem virðist hafa viðgengist á níunda og í byrjun tíunda áratugarins, þar sem var verið að senda einstaklinga á sveitaheimili og greitt með þeim eins og þurfalingum til að geyma þá. Þetta er ástæða fyrir okkur til að skoða þetta. Við verðum að skoða söguna því svona má ekki koma fyrir aftur.“

Aðspurð hvort Þroskahjálp telji að enn sé staðið eins að málum á sveitaheimilum svaraði Bryndís. „Ég hef engar upplýsingar um að það sé en hins vegar hef ég ástæðu til að ætla að það eimi ennþá eftir af þessu, að það séu ennþá einhverjir sem búa á sveitaheimilum en ég vona að það fari að heyra sögunni til,“ sagði Bryndís og bætti við. „Það hefur ekkert verið gert í þeim tillögum sem þar er lagt upp með af nefndinni að skoða vistun annarra barna sem voru vistuð á öðrum stöðum og skoða vistun fullorðins fólks með þroskahömlun og geðraskanir sem geta ekki sjálfir sóst eftir að það verði skoðað.“