Vísindamenn flugu í morgun með TF-SIF flugvél Landhelgisgæslunnar yfir Vatnajökul og svæðið norður af honum. Kanna átti betur sigdældir í jöklinum og sprungur í Holuhraun. Þetta myndband var tekið í þeirri ferð.

Í gær sáust í fyrsta sinn þrjár sigdældir suðaustur af Bárðarbungu sem myndast hafa vegna jarðskjálftahrinunnar í jöklinum. Þær eru hringlaga og samtals 5 kílómetrar. Þykkt jökulsins undir þeim er 400 til 600 metrar. Talið er að þessar sprungur hafi myndast vegna bráðnunar við botn. Talið er að 10 til 30 milljón rúmmetrar af vatni hafi bæst í Grímsvötn og að vatn úr sigdældunum hafi runnið þangað eða að Jökulsá á Fjöllum.

Berggangurinn undir Dyngjujökli er nú kominn inn í sprungusvæði megineldstöðvarinnar Öskju og hefur lengst um 1-1,5 kílómetra til norðurs síðan í gær. Það er töluvert minna en undanfarna daga. GPS-mælingar benda til þess að verulegra áhrifa frá honum gæti við Öskju. 

Á myndbandinu sjást vísindamenn og flugmenn um borð í TF-SIF og þá er flogið við jökulsporðinn og Dyngjujökul. Þegar 2:17 mínútur eru liðnar af myndbandinu sést Öskjuvatn. 

Í morgun flaug Ómar Ragnarsson um svipaðar slóðir. Á þeim myndum sjást greinilega sprungur í Holuhrauni sem kvikan í bergganginum undir hrauninu hefur myndað.