„Ef við skoðum nú allar huganlegar atburðarásir sem við getum látið okkur detta í hug, í sambandi við gos úr Bárðarbungu, þá er þetta alheppilegasta atburðarásin sem hægt er að hugsa sér.“ Þetta segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur, um gosið í Bárðarbungu, í þættinum „Hvað gerðist á árinu?“.

Þátturinn er á dagskrá Rásar 1 í dag klukkan 16:05.

Í þættinum verður farið yfir helstu atburði ársins. Einn þeirra er eldgosið í Bárðarbungu, sem hófst 16. ágúst. Páll segir menn hafi yfirleitt ekki miklar áhyggjur af gosi á þurru landi, úr basískri eldstöð eins og Bárðarbungu. Annað mál sé ef slíkt gos verður undir jökli – þá geti orðið sprengigos og jökulhlaup. Atburðarásin í Bárðarbungu hafi verið með heppilegasta móti.  

„Það er í gangi stórgos. Við megum ekki gleyma því. Það er sem sé búið að standa í meira en þrjá mánuði (…) og það hefur búið til hraun á stað þar sem það veldur engum vandræðum og einu vandræðin sem við höfum haft af þessu gosi hingað til, það er loftmengun. Það getur varla talist mjög alvarlegt í ljósi þess hvað atburðurinn er stór.“ Segir Páll Einarsson.