Umræða um bankakerfið hefur byggst mikið á reiði og mikilvægt er að búa til alvöru umræðugrundvöll um framtíð fjármálakerfisins, segir Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri samtaka fyrirtækja í fjármálastarfsemi og fyrrverandi fjármálaráðherra. Hún var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun.
„Mér líst bara mjög vel á að stjórnvöld reyni að búa til alvöru umræðugrundvöll um framtíð fjármálakerfisins,“ segir Katrín. „Umræðan um það hefur byggst ofboðslega mikið á reiði á síðustu árum. Eðlilega, þetta var rosalegt áfall fyrir tíu árum en það eru tíu ár síðan. Á þessum tíu árum hefur margt breyst.“
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið í ráðuneytinu í gær. Hvítbókin er afrakstur vinnu starfshóps sem skipaður var af fjármálaráðherra með það að markmiði að skapa heilbrigðan grundvöll og frjóan jarðveg fyrir umræðu, stefnumörkun og ákvarðanatöku um málefni sem varða fjármálakerfið.
Katrín segir að miklar breytingar hafi átt sér stað á undanförnum tíu árum sem liðin eru frá bankahruninu. Umræðan um bankakerfið hafi hins vegar einkennst af átökum um það sem gerðist árið 2008 en ekki um það sem hafi verið að gerast.
„Eins og til dæmis það að við erum með bankakerfi sem er að miklu leyti í eigu ríkisins, við erum með skatta sem eru sérstaklega lagðir á banka og allir skuldir bankanna,“ segir Katrín. „Þar með er verið að skekkja samkeppnina gagnvart lífeyrissjóðunum á húsnæðismarkaði því þeir eru ekki með þessa skatta.“
Í hvítbókinni er það meðal annars lagt til að lánveitingar lífeyrissjóðanna verði gefnar frjálsar, þannig að þeir geti veitt öðrum en sjóðfélögum lán. Katrín segir lífeyrissjóðina búa við skakka samkeppni frá bönkunum vegna bankaskattsins. „Lífeyrissjóðirnir sem eru ekki með sambærilega skattlagningu eins og bankarnir, þeir eru eingöngu að bjóða lán til sinna sjóðfélaga, þeir eru með lægra veðhlutfall, sem þýðir að þeir eru ekki opnir öllum. Þeir eru ekki opnir unga fólkinu sem þarf hærra veðhlutfall á þessum kjörum nema upp að ákveðnu marki.“
Bönkum sniðinn of þröngur stakkur
„Við þurfum að hafa heildarmynd af fjármálastarfsemi á Íslandi. Fjármálastarfsemi er ýmislegt fleira heldur en bankar þó þeir séu stórir gerendur,“ segir Katrín. Hún nefnir skyndilána- og smálánastarfsemi sem dæmi um þjónustu sem þrífist á meðan regluverk um bankana er þröngt.
„Síðan eru til dæmis hlutir sem hafa verið að gerast tengdir tækninni. Það gerist einfaldlega þannig að það er verið að bjóða allskonar skyndilán hjá minni aðilum. Þetta gerist á meðan við erum að þrengja skattlagningu og regluverk á bankakerfið sem við getum náð utan um. Bankakerfið er mjög sýnilegt og það er auðvelt að setja skatt á það,“ segir Katrín. „Það sem gerist er það, ef við horfum á þetta svona eins og pípu, að ef þú kreistir pípuna þá spýtist vöruframboðið út til hliðanna og fer annað. Og það er það sem hefur verið að gerast á undanförnum árum.“
Hún nefnir að aðeins með því að lækka bankaskatta væri það sambærilegt gríðarlega hagræðinu í rekstri bankanna. „Umfang þessa skatts, sem er mjög umdeilt að afnema, er svo mikið að ef hann yrði lækkaður þannig að hann færi aftur í 0,04% þá væri það eins og 15% starfsmannahagræðing í bankakerfinu. Þetta eru stórar upphæðir og veldur kostnaði í kerfinu.ׅ“
Þegar flett er í gegnum hvítbókina má lesa samtöl við fólk sem rætt var við og það virðist vera ofarlega í huga fólks að það megi ekki hverfa aftur til þess sem var fyrir efnahagshrunið 2008. Katrín tekur undir þetta. „Ég held að það vilji það enginn,“ segir hún. „Þetta var svona, við skulum bara horfast í augu við það. Það var margt sem fór illa. Ástæðan er sú að það var of lausbeislað regluverk. Síðan þá hefur regluverkið verið hert verulega. Það eru til dæmis margir sem halda að það sé enn þá verið að greiða mikla bónusa í bönkunum. Það er ekki svoleiðis. Það er heimild til þess að greiða álag upp að 25% af árstekjunum þínum. Það eru mjög stífar reglur um það. Þetta er eini geirinn í landinu þar sem þetta er svona. Það mætti segja að það hafi verið rifið í handbremsuna þar, því þetta var algert rugl. Margt af þessu situr eftir, þetta eru eðlileg særindi og menn urðu illa fyrir barðinu á þessu. En núna er árið 2018 og við erum með bankakerfi sem er 150% af landsframleiðslu, miðað við að það var nánast tíföld landsframleiðsla árið 2008.“
Ekki lengur bara hús og góður peningaskápur
Katrín segir að kostnaður bankanna við rekstur upplýsingatækni sé gríðarlega mikill í dag. Í hvítbókinni má lesa tillögur um leiðir til þess að takmarka kostnað bankanna vegna þessa, meðal annars samstarf og samnýtingu grunnkerfa. Mikilvægt er að takast á við þennan kostnað og reyna að lækka hann enda hafi hann áhrif á verð bankaþjónustunnar til neytenda, segir Katrín. „Í dag þarf ákveðinn tæknigrunn til þess að stunda fjármálastarfsemi, ekki bara hús og góðan peningaskáp.“
Hún segir að hjá samtökum fjármálafyrirtækja vilji fólk aðhald að rekstri fjármálafyrirtækja. „Við viljum gott regluverk, gott eftirlit, gagnsæi, að samkeppnisumhverfið sé heilbrigt og að allir sitji við sama borð. Það er þannig sem fólk í nútíðinni sem hefur lært af fortíðinni vill starfa.“